Skinny bitch

Við völsuðum um gangana í Odda, þarna um haustið ´97 og skeggræddum nýjustu trendin í dulspekinni. Celestine-handritið, sem fannst „djúpt inní regnskógum Perú“, hafði opnað huga okkar.

Við erum orka, náttúran er orka, skepnurnar eru orka. Við ERUM öll orka og við erum öll eitt og hið sama og ef þú ert nógu djöfulli jákvæður og í nógu andskoti góðum tengslum við sveiflutíðnina geturðu gert nánast hvað sem er. Keypt þér allskyns dót, sofið hjá stelpunum í nútímakenningum og fengið 9,5 á prófinu. Þetta og líka það að ekkert er tilviljun. Þetta var kjarninn boðskap hins týnda handrits. Allt sem gerist eru skilaboð að handan og þér ber að hlusta, meðtaka og framkvæma á grunni þeirra. Og þá mun þér farnast vel.

Á þessum árum varð orðið „orkuþjófur“ hluti af orðaforðanum en sumir voru helst til frekir á orkuna og þá varð að setja til hliðar.

Sumsé: Mindblowing shit.

Furðulegt hvernig hugurinn virkar. Því á dögunum keypti ég mér gallabuxur. Í fyrsta sinn í tuttugu ár voru þær í mittisnúmeri þrjátíu og fjögur. Fékk mér síðast slíkar buxur í London, haustið ´00, með bútkötti. Ef ég hefði fastað í tvo daga hefði ég mögulega getað keypt mér buxur í þrjátíu og tveimur og þá erum við að tala um stærðir frá því einhvern tímann skömmu eftir ´90. Hérumbil fermingarföt. Draumur miðaldra karls.

Jújú, ég hef verið í megrun. Þú gast þér rétt til. Og ég keypti þessar í þrjátíu og tveimur. Lét það eftir mér. Geymi þær fyrir aftan þessar í númeri þrjátíu og þrjú sem ég keypti líka. Sitja þarna prúðar og bíða eftir mér. Magra mér.  

Magri smeygði sér í þessar númer þrjátíu og tvö í morgun. Magra langaði að vita hvernig það væri að fara í svona buxur sem voru svo þröngar að þær aðgreindu hann með svolítið sársaukafullum hætti frá umhverfi sínu. Honum leið eiginlega eins og hann væri ekki lengur hluti af fjölskyldunni. Væri ekki lengur pabbi.

Og þá hugsaði ég í fyrsta skipti í tuttugu og fimm ár um þetta suður-ameríska handrit sem fannst djúpt inní skóginum og situr nú mögulega neðst í pappakassa upp á háalofti á Reyðarfirði. Þar mun það aldrei finnast.

 

jonknutur