Áttundi janúar. Elvis Presley hefði orðið áttatíu og eitthvað hefði hann lifað. Sallaður niður af hnetusmjörssamloku og verkjalyfjum á miðjum diskótímanum.
…
Faðir minn heitinn var Presleymaður. Svo langt sem það nær. Vil ekki gera hann að einhverjum sérstökum tónlistarunnanda eftir á því það væri einfaldlega ekki rétt. Hann var fremur hlutlaus þegar kom að tónlist en hann hlustaði þó eins og margir ungir menn á Elvis.
Keypti sjötommur í Grimsby, Hull og Cuxhaven, sem geymdar voru í möppu, prýddri mynd af síungu og síbrosandi andliti söngvarans. Löngu týnd eins og gerist oft með svona hluti því það er glingrið sem lifir af flutninga og erfðaskipti. Ekki sjaldgæfar hljómplötur frá sokkabandsárum rokksins. Þær enda á haugunum eða í Góða hirðinum.
En já. Svo fór Elvis að syngja „fyrir kellingar“, eins og pabbi minn sagði, og þá var hann afskrifaður. Hann fílaði ekki heldur Bítlana eftir ’66 svo það komi fram. Hann vildi, með öðrum orðum, ekkert kjaftæði þegar kom að tónlist. Enga tilgerð. Vildi eitthvað raunverulegt. Stál og hníf. Ekki glimmer og varalit. Lét ekki ímyndunaraflið fara með sig útí einhverja vitleysu. Fast land undir fæturna, takk fyrir.
…
Fyrir mína kynslóð er enginn munur á Elvis og Elvis-eftirhermu og þar af leiðandi erfitt að taka tónlistina hans alvarlega. Maður sér bara fyrir sér einhvern „að taka Elvis“ þegar lögin hans heyrast, sem er ekkert alltof oft, og þá er erfitt að sjá hann fyrir sér sem byltingarmann sem hann svo sannarlega var.
Þetta setur hlutina í ákveðið perspektív vilji maður það. En annað var það ekki í bili.