Ég horfi á þetta svona:
Hvað kom fyrir manneskju sem gert hefur Donald John Trump að leiðtoga lífs síns? Hvað kom fyrir foreldra hennar? Afa? Ömmu?
Það er eitthvað að og það verður ekki lagað með nýjum forseta sama hversu forsetalegur hann er. Þetta snýst um aðra hluti. Um grundvallaratriðin. Gildismatið.
Og manni líður eins og einhvers konar endalok séu að nálgast.
Kvíðnir tímar.
…
En hvað getur maður gert?
Maður er góður við börnin sín.
Allt annað er húmbúkk og tilgerð þegar maður býr órafjarri skálmöldinni.
Í búbblunni fyrir austan drekkum við nefnilega kakó og borðum loftkökur. Leyfum kanillhúðuðum hljóðheimi Taylor Swift, sem betrekkir setustofuna, að gleypa okkur eins og vanillubúðing. Það leggur fágaðan skógarilm frá kertinu, birtan hlý líkt og tilgengin Álafosspeysa, þegar við drögum fram spilin.
…
Ritstíflustokkurinn biður mig um svonefndan bucketlista.
Það er einfalt mál. Það sem mig langar að gera áður en ég dey er að strunsa niðrí bæ, í sjálft Sesambakaríið, og biðja um vandræði. Grímulaus.
– Ha? Hvað áttu við?
– Nú, bakið þið ekki vandræði?
– Nei, það held ég ekki.
– Þú hlýtur að vera nýbyrjuð. Leyfðu mér að tala við Val bakara eins og skot!
Svo ætla ég bara að bíða í rólegheitunum eftir lögreglubílnum og leyfa hlutunum að hafa sinn gang.