06.01.21

Það er auðvelt verk að sitja hér á friðarstóli og hafa skoðun á hinu og þessu. Ekkert mál að setja sig á háan hest. Horfa á heiminn í gegnum skjá og fella dóma. Einfalt. Létt. 

Bý á Reyðarfirði. Á konu, börn, einbýlishús og Subaru. Ég er karlmaður að skríða inn á miðjan aldur, rétt yfir kjörþyngd, ístrunni enn haldið í skefjum en við vitum alveg hvernig það fer að lokum. Enn með hár, meira að segja með lit, en við vitum líka hvernig það endar. Tennurnar upprunalegar fyrir utan þessa einu en verður það þannig í kistulagningunni minni?

Eða munu börn og barnabörn geta fjarlægt góminn í laumi og átt hann til minningar? Stillt honum upp á hillunni í stofunni við hliðina á framandi pottablómi? 

(Þetta eru nú restarnar af honum karli föður mínum)  

Það er ekki gott að segja en ég get gengið um bæinn nokkurn veginn daglega án þess að skammast mín.

Án þess að svo mikið sem roðna. 

„Það var ekki eðlilegt hvað þeir fiskuðu,“ sagði gamli maðurinn þegar hann fékk fréttirnar. Fyrirvaralaust hafði báturinn sokkið og tveir synir fóru í sjóinn. Eru ófundnir enn.

Hugsa stundum um þetta og ekki laust við að það fari geigur um mig.

Enda hef ég ekki verið neitt eðlilega fengsæll.

 

jonknutur