Ég hef skrifað svo að segja upp á dag í heilan mánuð. Ég veit ekki hvers vegna ég geri þetta. Ég held bara að hinn valkosturinn, að skrifa ekki neitt, sé síðri.
Þetta átti að vera dagbók, eins persónuleg og opinber birting leyfir. Var nýbúinn að lesa dagbókina hans Óskars Árna, sem kom út fyrir jólin, var undir áhrifum en svo sleppir maður tökum á formi og þetta verður bara það sem þetta verður.
…
Svo er það ekki leyndarmál (les: það var s.s. leyndarmál en ekki lengur greinilega) að ég fór á ritlistarnámskeið í haust. Er að reyna koma mér út úr skápnum í annað sinn. Það dugar ekkert minna. Líður svo vel í honum. Kósíheit og Birkenstock.
Ég kom úr honum fyrir nokkrum árum og skrifaði bók en fljótlega eftir útgáfu hennar fann ég að hjartað var ekki lengur með í för og áhuginn fór dvínandi. Hafnaði þessu alfarið og kom mér þægilega fyrir í skápnum að nýju. Um þetta gæti ég skrifað nokkuð langt mál. Trúið mér.
Hætti líka að lesa fagurbókmenntir, las bara facebook og innihaldslýsingar á barnamat. Einu skapandi skrifin fóru fram á samfélagsmiðlum og ég mældi árangur þeirra í lækum. Átti bæði góða og slæma daga.
En hér er annað uppi á teningnum. Þetta er strictly anti-commercial.
…
Mitt helsta vandamál í gegnum tíðina – þegar kemur að skrifum – er hvað mér hættir til að taka þau alvarlega og kannski, bara kannski, er ég að reyna venja mig af því núna. Að það sé tilgangur í sjálfu sér að skrifa.
Ég er meira að segja byrjaður að skrifa í moleskine-bækurnar mínar, svipaðar þeim sem Hemingway gekk með í rassvasanum, sem ég tímdi ekki að nota því þær voru eingöngu fyrir þýðingarmikil skrif. Eitthvað merkilegt. Eitthvað sem stæðist tímans tönn. Klassík sem gæti ratað í næstu bók. Þessi þankagangur hlýtur að vera breytast því í gær skrifaði ég:
Dósir: 467
Plast: 45
Gler: 9
Það kveður greinilega við nýjan tón, heyri ég Egil Helgason segja.