04.01.21

What event in your life has shaped your world view the most?

En hvaða sýn hef ég á heiminn? Um það er ég ekki alltaf viss og það er lykilatriði. Ég er sjaldan viss. 

Hef áður skrifað einhvers staðar að ekkert hafi haft jafn mikil áhrif á mig og Simpsons-þættirnir sem ég byrjaði að horfa á einhvern tímann um ’90 og það er ekki verri hugmynd en hver önnur. Fyrir það fyrsta horfði ég Simpsons daglega því ég tók þá upp og horfði svo á hvern þátt aftur og aftur og aftur eða þar til ég kunni þá bókstaflega utanbókar. Þetta gerði ég í nokkur ár.

(Svo það sé sagt hef ég ekki séð þátt með Simpsons nokkuð lengi. Frétti bara nýlega að það væri enn verið að framleiða þá. Horfði á einn og hálfan þátt og var svona temmilega hrifinn.) 

Og þetta voru auðvitað engir venjulegir þættir. Maður hafði aldrei séð neitt í líkingu við þetta, maður fór úr Fyrirmyndarfjölskyldu Bill Cosbys (almáttugur…) yfir í þessa disfúnksjónal fjölskyldu þar sem allir karakterar bæjarins voru einhvers konar andhetjur: Drykkjusjúklingar, siðblindingjar, heimskingjar, ofsatrúarfólk og aumingjar af allskonar tagi. Allir nema Lísa og Marge. Konurnar. 

Þjóðfélagsrýnin var skörp en var hvorki til hægri eða vinstri. Þarna var eitthvað annað á ferðinni. Erfitt að festa fingur á það en ég held að það sé ekki tilviljun að Simpsons hafi verið hleypt af stokkunum sama ár og múrinn hrundi. 

Og í þessu lá maður. Maríneraðist í þessum fabríkeraða heimi þar sem sannleikurinn var á reiki og maður beið þess aldrei bætur. Kompásinn laskaður varanlega.

Þannig að: Svarið við spurningunni er fall múrsins. Þetta vissi ég ekki fyrir korteri síðan. Takk kærlega, minn kæri ritstíflustokkur.

 

 

jonknutur