03.01.21

Síðasti dagur frísins. Á morgun vinna og rútína. Þetta hafa verið góðir dagar. Mikið lesið og leikið og við sem fjölskylda erum orðin miklu flinkari en við vorum að slaka á. Leyfum okkur að vera löt og sjáum orðið sífellt meira gildi í að gera ekki neitt. 

What historic moment do you wish you could have attended and why?

Það skömm frá því að segja, verandi fyrrum blaðamaður, að þá hef ég aldrei sóst í að vera á staðnum þegar merkilegir hlutir eru að gerast. Mig hefur stundum langað suður til að taka þátt í mótmælum en ekki nógu mikið greinilega eða verið of blankur. Eða eitthvað. Hef ekki neina afsökun.

Það bara hefur ekki hentað að taka þátt í byltingum! Hef bara verið of upptekinn við að baka súrdeigsbrauð og setja hvítt í vél!

Ég gæti sagt Woodstock. Tónlist hefur verið mitt helsta áhugamál frá táningsaldri og hví ekki að fara með tíma- og ferðavélinni þangað? Er þetta ekki sjálf móðir rokkhátíða?

Fyrst yrði ég hissa. Ekki nokkur spurning. Agndofa yfir umhverfi mínu. Myndi stara á alla nöktu hippana og glápa úr mér augun þegar Hendrix kæmi á sviðið. Ég myndi örugglega skynja orkuna – hvað sem það þýðir – og hvur veit? Kannski færi ég úr lopapeysunni. Hvur veit?

En ég þekki mig. Mér færi að leiðast hávaðinn. Á ég að vera í stuði vegna þess að allir aðrir eru í stuði? Hvaða helvítis stuðfasismi er þetta? Á ég að gapa af því að allir aðrir eru að gapa? Hitinn. Bleytan. Allt of mikið líkamlegt áreiti. Sjónræn mengun alls staðar! Gargandi hippar, leðjugir upp fyrir haus, finnandi sjálfa sig á sýru!

Ég myndi flýja af hólmi, hrökklast í burtu. Fengi mér göngutúr einhvers staðar í skóginum, einhvers staðar fjarri sögulegum viðburðum.

Fari þeir norður og niður. 

Um kvöldið fyndi ég klúbb og nyti tónlistar í litlum hópi þar sem fólk sæti, drykki og japlaði á salthnetum eins og siðmenntaðar manneskjur. Miles Davis á sviðinu og með honum a.m.k. Ron Carter og Tony Williams. Já, og auðvitað Herbie. Hvernig gat ég gleymt honum? Það má reykja og það finnst mér notaleg tilhugsun þótt ég fengi mér ekki sjálfur.

Fengi mér aftur á móti sæti hjá einhverju pari og í pásunni myndi ég spjalla við það. Því það er það sem ég, þessi ímyndaði og bláedrú ég, geri. Sest hjá ókunnugu fólki og spjalla við það. Eitthvað þarf jú að gerast í þessari fantasíu. 

Þetta væru frjálslyndir Ameríkanar á þrítugsaldri. Síðhærð og klædd tískufötum þessa tíma. Þau myndu spyrja mig út í hreiminn en væru engu nær þegar ég segðist vera frá Íslandi. Fyrir tíma Bjarkar og Bláa lónsins, skiljiði. Enginn veit neitt í sinn haus. Nálægt Danmörku, segi ég til útskýringar og þau væru aðeins nær. Þekkja til Evrópu að minnsta kosti og langar til Ítalíu í brúðkaupsferðina sína. Ef þau ætla að gifta sig. Eru enn að gera upp hug sinn. Finnst þetta eitthvað svo square eins og þau segja. Of borgaralegt (þau skilgreina sig sem Maóista). Þau vita auðvitað ekki að þau verða gift fyrir áramót og skilin fyrir 1980 þegar hún yngir upp enda vonlaust að búa með honum. Maðurinn gengur í eitthvað költ og til hans hefur ekki spurst síðan. 

Ég myndi benda á hálsmenin þeirra sem væru samstæð. Litlir, rúnaðir steinar. Grænir. Sennilega jaspís. Þau fengu þetta á verndarsvæðum indiána í Arizóna er þau óku Route 66 eftir útskrift. Og viti menn: Það læknar psoriasis! 

Maðurinn tæki af sér hálsmenið og rétti mér. Útrétt höndin væri öll útí útbrotum og í andartak kæmi yfir mig löngun til að kroppa í hrúðrið.

Svo myndi ég skála við hippana í vatni og sítrónu og legði við hlustir þegar bandið teldi í Round Midnight.

Allt gerðist þetta fjarri sögulega hávaðanum á Woodstock.

 

jonknutur