02.01.21

Describe what yout life would be like if you were 100 years earlier?

Ég gef mér að ég hefði orðið Norðfirðingur. Fæddur árið 1875 og ég væri af sömu stétt og stöðu og forfeður mínir. 

  • Ég hefði búið í torfbæ. Það eru ekki nema þrjár kynslóðir á milli einbýlishússins við Sunnugerði á Reyðarfirði og torfbæjarins í Naustahvammi þar sem langamma mín, Færeyingurinn Kristjana Jacobsen, átti heima. 
  • Hefði ég ekki lent í einhverju slysi sem barn og tapað heilsu hefði ég orðið verkamaður til sjós og lands. Ég er kominn af fátæku fólki.
  • Ég hefði borðað meiri fisk. Gleymi því ekki hvað Siggi afi (var afabróðir svo það komi fram) varð hneykslaður þegar ég, sirka tíu ára, neitaði að borða steinbít. Hafði engan húmor fyrir því.
  • Ég hefði orðið sannfærður kommúnisti eftir miðjan aldur. Ekki annað hægt í Neskaupstað. Það vantar ekki mikið upp á þetta hjá mér svosem en sökum velsældar hefur Skarfakynið (jújú, einn leggur ættarinnar er með þetta fína ættarnafn) færst til hægri. En ég er svag fyrir sósíalisma. Viðurkenni það. 
  • Ég hefði gifst ungur stelpunni í næsta húsi, byrjað fyrr að eignast börn og átt fleiri. Hefði hrúgað þeim niður en sökum þreytu og tímaskorts hefði ég ekki kynnst þeim almennilega. 
  • Mögulega hefði ég átt mér tómstundir en nokkrir forfeður mínir áttu sér áhugamál, merkilegt nokk. Einn þeirra málaði og tók myndir. Hef séð þær og þær eru bara nokkuð fínar. 
  • Svo er það spurning hvaða legg föðurfólksins ég hefði tilheyrt. Færeyski leggurinn er langlífur og hraustur. Þegar Siggi afi fór á hjúkrunarheimili á tíræðisaldri tók hann engin lyf og starfsfólkið hélt að hann væri að ljúga. Ég hefði getað orðið eins og hann, hundrað ára gamall. Upplifað nokkrar styrjaldir og dáið trúlaus í kringum 1980. Ekki annað hægt þegar Brunaliðið trónir á toppi vinsældarlistans. Mín síðustu orð hefðu orðið: Hvað varð eiginlega um Inga T. andskotinn hafi það? Já, ég hugsa að ég hefði orðið mússíksnobb í öllum lífum. Ímynduðum og raunverulegum. 

Kúkurogpiss-húmorinn er í algleymi hér á heimilinu og Elías hefur tekið við kyndlinum. Saman eru þau deadly duo. Ég ákvað að nýta þetta sem tækifæri í tónlistaruppeldinu og spurði Iðunni hvort hún hefði heyrt í hljómsveitinni Rass. Hún svaraði: 

– Nei, en ég hef heyrt talað um hljómsveitina Kiss.

 

jonknutur