01.01.21

Það er runninn upp nýársdagur og ég er fyrstur á fætur. Það heyrist enn í flugeldum hér nálægt mér. Einhver hress sem situr einn að flugeldapokanum. Leikur að eldi, segi ég. Leikur að eldi. Hann gæti átt verulega geðvondan og timbraðan nágranna. 

Ég hafði einu sinni trú á áramótum sem tímamótum. Að maður gæti notað þau sem tækifæri til að gera breytingar. Í gegnum tíðina hafa þetta verið, í mínu tilviki, hlutir eins og tóbaksnotkun og líkamsþyngd. Þetta dæmigerða.

En þegar upp er staðið er þetta bara eins og hver annar venjulegur dagur. Auðvitað er hægt að gera breytingar. Hætta einhverju eða byrja á einhverju og þá getur þessi dagur verið jafn góður og hver annar til að hefjast handa en hlutirnir verða hversdagslegir eftir fáeina daga og gamlir vanar eru seigir. Þetta vitum við. 

Hef því meiri trú á hamförum og tækifærunum sem í þeim felast. Krísunum sem allir ganga í gegnum. Eitthvað sem hristir upp í manni og fær mann til að stokka spilin. Einhver atburður sem hendir mann, getur verið snjóskriða, gæti verið slys, skilnaður, skandall á þorrablóti, veikindi, veira eða dauði. Getur verið hvað sem er svo lengi sem það sjokkerar þig og jafnvel misbýður þér – hver ertu eiginlega, maður!?

Eitthvað sem veitir almennilega viðspyrnu svo þú getir tekið stökkið (jújú, þetta er nátengt myndlíkingunni um botninn úr alkafræðunum.)

En þetta er auðvitað ekki nóg heldur. Þetta er bara tækifærið í hörmungunum og síðan byrjar vinnan fyrir alvöru. Þá hefst lestur góðra bóka og öll litlu skrefin sem þarf  að taka sem virka hundómerkileg. Í það minnsta ómerkilegri en að fara í búð annan janúar og kaupa sér göngufatnað upp á hundrað þúsund krónur. Ég er meira að hugsa um hluti eins og:

Í dag ætla ég að búa um rúmið mitt. Eða: Í kvöld ætla ég að kyssa börnin mín góða nótt. 

Og ég er auðvitað ekki að segja ykkur neitt nýtt. Þetta er klisja og þetta er tepokaspeki.

Þetta meikar bara sens. Í minni sjálfshjálparbók í það minnsta. 

Gleðilegt ár!

 

jonknutur