Ég er eitthvað aðeins að fikta við smásagnaskrif og ég ætla að gerast svo djarfur að setja eina hér.
Baskahúfan
Þetta var í byrjun mars. Ég sat í eldhúsinu í blokkaríbúðinni minni í Bæjarlind, Kópavogi, með spjaldtölvuna fyrir framan mig. Klukkan var 8:17 þegar mér barst tölvupóstur úr netfanginu alfrun_hinrika (hja) harid.com.
Hann var svona:
Sæll Hreinn,
Þann 6. júní, sjómannadag, ætlar hópurinn okkar að hittast og fagna því að þrjátíu ár eru frá því að flest okkar staðfestu trú sína. Það væri okkur sönn ánægja ef þú þekktir boðið. Viltu vinsamlegast láta okkur vita fyrir 1. maí hvort þú komist. Þá reiknum við með þér í mat og gistingu og sendum þér greiðsluupplýsngar.
Fyrir hönd fermingarárgangsins 1984,
Með kærri kveðju,
Álfrún Dís Gunnarsdóttir
Hársnyrtir.
Þetta voru fyrstu samskipti mín við Álfrúnu í þrjátíu ár. Svo að segja fyrstu samskipti mín við nokkurn í árgangnum mínum í jafn langan tíma. Ef þetta voru þá samskipti.
Bréfið virtist staðlað. Nafnið mitt virtist kópípeistað.
Ég var sá eini í bekknum sem fermdist ekki. Og ég var kominn með hausverk.
…
Í þau örfáu skipti sem ég hef hitt fólk að austan hef ég haldið þeim „samskiptum“ stuttum en kurteisislegum. Slitið þeim við fyrsta mögulega tækifæri, afsakað mig og sagst vera á hraðferð. Stundum hef ég beinlínis forðast fólk, fært mig yfir á hinn vegarhelminginn, horfið inn í verslanir og nokkrum sinnum hef ég beinlínis hlaupið í skjól. Hef heyrt fótatakið nálgast þar sem ég hnipra mig saman í skjóli suðurkóreiskrar smábiðreiðar. Held í mér andanum og er að nálgast yfirlið þegar ég sleppi honum loksins. En þó ekki fyrr en þrammið þokast fjær. Og auðvitað hef ég hafnað öllum samskiptum á Facebook. Það segir sig sjálft. Ekki að vinabeiðnunum hafi beinlínis rignt inn en það er önnur saga.
Ég sá hana síðast á dansleik í ágúst 1990 aðeins nokkrum dögum áður en ég flutti suður. Þetta sumar höfðum við unnið saman í frystihúsinu og um það bil tíu mínútum áður en morgunkaffið hófst, rétt uppúr hálf tíu, lét ég mig hverfa úr tækjasalnum og hraðaði mér niðrí fatageymslu. Gekk beint að fatahenginu hennar, án nokkurs slórs, og nusaði af fötunum hennar. Ákaft. Eins og hvolpur. Svo slakaði ég á. Settist á bekkinn, lagði eldrauða baskahúfuna hennar yfir andlit mitt og hallaði mér aftur. Dró inn andann eins djúpt og ég gat, eins og þaulæfður kjallarameistari. Lét spennuna líða úr líkamanum.
Sígarettuangan og hársprey. Ungdómsilmur. Vöðvabólgan í öxlunum hvarf og það brakaði í hryggnum.
…
Á dansleiknum drakk ég mig blindfullann. Hafði einsett mér að tala við hana. Ég gat nefnilega verið fyndinn og orðheppinn og kannski sæi hún það. Kannski fengi ég hana til að hlæja og hún myndi segja eitthvað eins og:
„Hreinn, þú ert frábær gaur!“ eða „Hreinn, þú kemur aldeilis á óvart!“
Það hefði verið nóg. Í bili að minnsta kosti.
Ég hitti hana hinsvegar ekki á ballinu. Ég sá hana ekki fyrr en síðar um nóttina eða eldsnemma um morguninn. Ég man það ekki nákvæmlega.
Það var dagbjört og fögur sumarnótt austur á fjörðum og ég ráfaði heim til mín, talandi við sjálfan mig. Langþreyttur af drykkju og djammi. Sólin lýsti upp fjallið sunnanmegin í firðinum, kastaði á það fallegum appelsínugulum lit og trilla skar spegilsléttan fjörðinn í tvennt. Ég heyrði í díselvélinni og sá trillukallinn ditta að einhverju á dekkinu. Mikið væri ég til í að vera þarna um borð, hugsaði ég. Hann virtist hafa allt undir kontról og dagurinn lá fyrir. Ég var bara nítján ára, enn þá hreinn sveinn, á leiðinni suður í háskólann. Ætlaði að læra viðskiptafræði og var hvorki kvíðinn né fullur tilhlökkunar. Ég var hvorki né. Bara alveg eins og í dag.
En það var þá sem ég heyrði bældan hlátur skammt frá mér og gusugang. Ég stóð fyrir ofan sundlaugina og allar hugsanir gufuðu upp þegar ég sá par í miðri lauginni í innilegum faðmlögum. Mögulega var það að stunda samfarir. Ég var ekki viss og það rann af mér.
Ég kraup og færði mig nær. Læddist. Skreið raunar þegar ég nálgaðist. Vildi nefnilega umfram allt bera kennsl á fólkið, fá nöfnin. Það skipti máli upp á framhaldið.
Umhverfis laugina voru grasstallar, afmarkaðir með grindverki neðst sem virkaði eins og rammi utan um laugina. Undir því steinsteyptur kantur. Ég sá fyrir mér að fela mig á bak við hann og njóta útsýnisins þegar færi gæfist. Innbyrða þetta til fulls. Mér var farið að blýstanda eins og þið getið ímyndað ykkur.
Það var rauða baskahúfan á sundbakkanum sem varð mér að falli því mér varð svo um þegar ég sá hana að ég hrasaði niður bakkann, flaug niður grasstallana í loftköstum og skall með höfuðið beint í steyptan kantinn. Steinrotaðist um leið og ég fékk það í nærbuxurnar. Vaknaði á sjúkrahúsi nokkrum dögum síðar en slapp sem betur fer við mjög alvarlegar heilaskemmdir.
Ég las bréfið einu sinni enn áður en ég eyddi því. Verkurinn var horfinn og ég var orðinn spólgraður.