Skinny bitch

Við völsuðum um gangana í Odda, þarna um haustið ´97 og skeggræddum nýjustu trendin í dulspekinni. Celestine-handritið, sem fannst „djúpt inní regnskógum Perú“, hafði opnað huga okkar.

Við erum orka, náttúran er orka, skepnurnar eru orka. Við ERUM öll orka og við erum öll eitt og hið sama og ef þú ert nógu djöfulli jákvæður og í nógu andskoti góðum tengslum við sveiflutíðnina geturðu gert nánast hvað sem er. Keypt þér allskyns dót, sofið hjá stelpunum í nútímakenningum og fengið 9,5 á prófinu. Þetta og líka það að ekkert er tilviljun. Þetta var kjarninn boðskap hins týnda handrits. Allt sem gerist eru skilaboð að handan og þér ber að hlusta, meðtaka og framkvæma á grunni þeirra. Og þá mun þér farnast vel.

Á þessum árum varð orðið „orkuþjófur“ hluti af orðaforðanum en sumir voru helst til frekir á orkuna og þá varð að setja til hliðar.

Sumsé: Mindblowing shit.

Furðulegt hvernig hugurinn virkar. Því á dögunum keypti ég mér gallabuxur. Í fyrsta sinn í tuttugu ár voru þær í mittisnúmeri þrjátíu og fjögur. Fékk mér síðast slíkar buxur í London, haustið ´00, með bútkötti. Ef ég hefði fastað í tvo daga hefði ég mögulega getað keypt mér buxur í þrjátíu og tveimur og þá erum við að tala um stærðir frá því einhvern tímann skömmu eftir ´90. Hérumbil fermingarföt. Draumur miðaldra karls.

Jújú, ég hef verið í megrun. Þú gast þér rétt til. Og ég keypti þessar í þrjátíu og tveimur. Lét það eftir mér. Geymi þær fyrir aftan þessar í númeri þrjátíu og þrjú sem ég keypti líka. Sitja þarna prúðar og bíða eftir mér. Magra mér.  

Magri smeygði sér í þessar númer þrjátíu og tvö í morgun. Magra langaði að vita hvernig það væri að fara í svona buxur sem voru svo þröngar að þær aðgreindu hann með svolítið sársaukafullum hætti frá umhverfi sínu. Honum leið eiginlega eins og hann væri ekki lengur hluti af fjölskyldunni. Væri ekki lengur pabbi.

Og þá hugsaði ég í fyrsta skipti í tuttugu og fimm ár um þetta suður-ameríska handrit sem fannst djúpt inní skóginum og situr nú mögulega neðst í pappakassa upp á háalofti á Reyðarfirði. Þar mun það aldrei finnast.

 

Fiðrildi

Það eru tvær mögulegar pásur á leiðinni til Borgarfjarðar. Kjarvals-hvammur og sjálfsalinn hans Kidda Vídjóflugu. Börnin ráða og þá vitiði hvor staðurinn verður fyrir valinu.

Þau fá fjóra gullpeninga frá ömmu sinni og biðja mig um að annast innkaupin. Mér líst ekki á þetta. Var snuðaður um Kitkat á nákvæmlega þessum stað fyrir um ári síðan en um leið hef ég svo fjandi gaman af að versla við svona græjur. Örugglega einhverjar sálrænar skýringar á því eins og á öllu öðru. Þið vitið, enginn afgreiðslumaður sem fellir neina dóma, já, eða óuppfyllt og óskilgreinanleg þörf frá barnæsku sem á einhvern pervískan hátt er fullnægt með viðskiptum við sjálfsala.   

Um leið og fyrsta hlunknum er þrýst inn um raufina veit ég að helvítis draslið er bilað. En það stoppar mig ekki. Ég læt þann næsta og þann næsta og loks þann síðasta. Þetta er ekki græðgi. Mig langar ekkert í neitt andskotans nammi enda þarf ég að passa upp á kolvetnin og fituna (má ekki rugla macro-ið mitt svo snemma dags). Ég vil bara að draslið virki og þess vegna vel ég númerið á Kitkatinu (24), ýti á innkaupatakkann, vit-andi fullvel að ekkert mun gerast. Nákvæmlega ekkert. Ég lít inn um rauf-ina og sé gullið liggjandi þarna, skínandi fínt. Vantar bara eitt stykki lyngorm.

Eftir á að hyggja eru viðbrögð mín fyrirsjáanleg. Í fyrsta lagi púlla ég auðvitað hálffimmtugaSagaProétandiplebbann og gef draslinu einn þéttingsfastan löðrung á vinstri kinn en það kallar ekki fram nein viðbrögð. Draslið sýnir engin svipbrigði og gersamlega gengur frá mér með ískaldri þögninni. Í öðru lagi bölva ég upphátt og spyr eiginkonu mína hvers vegna þessi svikamylla fái að standa þarna óáreitt. Eins og hún viti svarið en svona er maður víst á ögurstundu og það getur verið gagnlegt að vita það.

„Hringdu þá í manninn,“ segir hún og ég lýg því að ég sé að „sjálfsögðu að fara gera það.“

Og svo fer ég að hugsa um börnin. Um blessuðu börnin. Svikin um súkkulaðið sitt. Hvernig á ég að útskýra þetta fyrir þeim?

En þau heyra ekki í mér þegar ég kalla. Sé þau hlaupandi einhvers staðar útí móa. Eflaust að eltast við fiðrildi.  

 

23. mars 2021 – Reyðarfjörður

Ég fletti í gegnum gamalt albúm og horfi á löngu liðna ættingja. Þessar myndir hafa ekki merkingu fyrir neinn á heimilinu nema mig sem veit að minnsta kosti hvað þeir heita en varla það. En þær hafa enga lögun eða form, enga merkingu, eru bara svipmyndir af atburðum sem gerðust fyrir löngu og enginn man hvað svo.

Það kemur stundum yfir mig löngun til að vita meira um þetta fólk. Hvernig var göngulagið þeirra, hvernig bar það sig þegar það kveikti á sígarettu (því það reyktu allir í gamla daga), hvernig tók það vonbrigðum. Eða sigri í Kasínu? Eða hvað ætli því hafi fundist um naflaló? Hafði það yfirleitt einhverja skoðun á henni?

Ég fletti albúmum og læt hugann reika en í morgun, þennan morgun akkúrat núna, rétt um sjö, fannst mér ég beintengjast liðnum ættingja, valinn af handahófi, þegar ég tæmdi bleiudall sonar míns í svörtu ruslafötuna. Ég lifði mig svo inní þetta að í eitt brot úr andartaki, ekki lengur (sennilega skemur) breyttist ég í þennan fótkalda ættingja sem fer líka út á morgnana og losar úr náttpottinum. Fyrir áttatíu árum síðan. Pælið í því. Beint á bæjarhelluna ef því er að skipta.

Um þetta væri hægt að skrifa ljóð. Ég er viss um það.

 

Lífsmörk

Ég gladdist svo mjög þegar læknirinn fór yfir blóðrannsóknina mína að það lá við að ég yrði mér til skammar. Mér létti svo óumræðanlega! En ég dulbjó gleðina með því að reka upp hósta, svo hressilegan að læknirinn horfði áhyggjufullur á mig og spurði hvort ég væri ekki örugglega í lagi. Hefði hann bara vitað!

 

 

11.02.21

Ég hef verið á námskeiði í ritlist og ekki gefið mér tíma til að blogga. Þetta er algeng afsökun manna sem vilja skrifa en gera það ekki. Þá er hún reyndar þannig að menn segjast ekki hafa tíma. Ég passaði mig og orðaði þetta öðruvísi: Ég GEF mér ekki tíma í bloggskrif. Ég gef mér hinsvegar tíma til að leysa verkefnin sem kennarinn útdeilir miskunnarlaust.

Ég skipti deginum mínum upp í hálftíma og flestum er varið í fjölskyldu, vinnu og þessar helstu skuldbindingar. Þetta er hið daglega líf sem ég lifi. 

Svo gef ég mér einn eða tvo hálftíma í áhugamál eins og þetta ef ég er ekki úrvinda. Og þá þarf ég að velja og hafna. 

Ég var í Reykjvík með dóttur minni um helgina. Gistum hjá mömmu sem hefur komið sér vel fyrir í Kópavogi með útsýni yfir Smáralindina. Sérstök kennileitin syðra: Ávöl og sanseruð. Ólík þessum heima sem urðu til í annars konar umbrotum. 

Fórum á kaffihús og það var frískandi að sjá hópa af fólki sem ég mundi ekki eftir að hafa séð áður. Stóð mig að því nokkrum sinnum að góna á fólk, taka það út, velta fyrir mér nefjum og munnsvipum á meðan dóttir mín var niðursokkinn í tölvuleik sem ég kalla tölvuspil því mér finnst gaman að þykjast vera eldri en ég er. Það gleður hana. Þegar ég verð aðeins eldri og skeggið grárra ætla ég að segja henni frá bernsku minni í baðstofunni, hvar við lásum kvæði og prjónuðum ullarsokka. 

Skynfærin höfðu ekki undan að meðtaka skilaboðin. Sjálf miðborgarhljóðin:

Látlaust skraf og skvaldur sem brotið er upp með kalli kaffiþjónsins: Jón! Tvöfaldur latte, barnakakó og gulrótarmöffins! Angan af brenndu brauði, kaffi og ilmvötnum fólks sem ég þekki ekki. Kaffivél ræskir sig og maður í hnésíðum frakka, með vel snyrt skegg og tískugleraugu, spyr hvort hægt sé að fá ábót.

 

 

26.01.21

Ég gleymdi mér ekki í gærmorgun og ég skrifaði heilan helvítis helling en það fór beint í skúffuna. Fannst það ekki eiga heima hér. Ég trúi ekki blogginu fyrir öllu enda hefur það á sér áru dagbókar og þar með sannleika. Reynslan hefur kennt mér að ég get ekki bullað að vild hérna og ég ber persónulega ábyrgð á öllu sem er skrifað á þessa síðu.

Nú heldur lesandi að ég hafi verið að skrifa eitthvað agalega djúsí en svo er ekki. 

Það bar til tíðinda í gær því vettlingar sem Esther prjónaði á mig voru til umfjöllunar í Fréttablaðinu. Ástæðan sú að þeir eru nokkurn veginn nákvæmlega eins og vettlingarnir sem Bernie Sanders var með í kuldanum á vígsluathöfninni um daginn. Þetta var svokölluð furðufrétt en í þau fáu skipti sem ég kemst í kast við fjölmiðla er það venjulega vegna einhvers furðugangs: Líkfundur í Neskaupstað, deilur við Útvarp Sögu, prjónavettlingar Bernie Sanders. You get the picture. 

Hvaða ályktanir munu stafrænir fornleifafræðingar draga um þennan mann sem um voru skrifaðar svona undarlegar fréttir? 

Ekki gott að segja en líklega engar. 

Fékk pakka af árituðum ljóðabókum í gær frá mínum uppáhalds höfundi: Óskari Árna Óskarssyni. Ákvað á dögunum að ég yrði að eiga allar bækurnar hans. Þegar ég lagði inn á hann sá ég að höfundurinn deilir afmælisdegi með syni mínum og ég fann mig knúinn til að segja honum það. Það var ekki fyrr en ég var búinn að ýta á send að á mig komu vöflur. Var ég í alvörunni að segja honum þetta? Hef ég s.s. þennan mann að geyma þegar upp er staðið? En Óskar tók því vel og sendi mér vinalega kveðju til baka.

 

24.01.21

Tvö ljóð:

Neskaupstaður (65° 08’ 47” N  13° 40’ 41” V)

„Virðist vera gæddur öllum þeim kostum sem verstöðvar þurfa að hafa.“

Ólafur Olavius, stúdent og áhugamaður um hagnýt náttúruvísindi, 1776.  

46 ára

Þú festir barnið í bílstólinn um leið og þú óttast að klemma taug í bakinu. 

What’s something you disagree with about the way you were raised?

Allir hafa sínar ástæður. Það er hinn bitri sannleikur sem rennur upp fyrir manni þegar maður elur upp sín eigin börn. 

Aðstæður mínar eru aðrar. Fyrir það fyrsta hef ég meiri tíma fyrir börnin mín. Foreldrar mínar unnu mikið, meira en mig grunar held ég stundum og svo byggðu þau sér hús með öllu því veseni sem því fylgir.

Minning:

Pabbi minn kemur heim klukkan fjögur á á aðfangadag í nýþrifið húsið og allir búnir í jólabaðinu. Hann er í vinnufötunum, á að vera kominn í jólafrí en á allt eins von á símtali frá útgerðarstjóranum. Hann angar af olíu. 

Olía, sjampó og Ajax: ein leið af mörgum til að lýsa æskujólunum.

Ég vinn mínar þrjátíu og eitthvað klukkustundir á viku og get ákveðið hvernig ég ráðstafa tímanum mínum eftir fjögur. Ég nota hann með krökkunum. 

Hljómar eins og ég sé hinn fullkomni faðir en ég er það að sjálfsögðu ekki. Ég get verið víðsfjarri þótt ég sé á staðnum. Eitt af mínum helstu persónueinkennum myndi konan mín sennilega segja.  

Eins og flestir sem komnir eru yfir fertugt hef ég gengið í gegnum tímabil þar sem ég hef verið argur útí foreldra mína, fundist þau hafa gert mistök t.d. í uppeldi.

Þau voru áhugalaus um áhugamálin mín og þau gáfu mér ekki páskaegg og ég fékk ekki í skóinn fyrr en ég grenjaði. 

Ekkert af þessu hefur skaðað mig og ég nýt þess í dag að segja fólki frá þessu s.s. þessu með páskana og jólin og ég er kominn með svona shtick sem gæti kallast Harmsagan. Hún fjallar um hvernig ég var snuðaður um ýmislegt sem önnur börn fengu að njóta, hvernig mér var mismunað, beittur órétti og ranglæti. 

Tímarnir eru breyttir. Maður æfði fótbolta í einrúmi, kannski einn eða tveir pabbar á hliðarlínunni, gargandi eitthvað á dómarann eða á börnin í liði andstæðinganna en fyrst og fremst á sín eigin börn eins og normið er í dag (mömmur láta ekki einu sinni sitt eftir liggja núorðið). Ég held ég hafi ekki einu sinni þurft ár og þroska til að sjá hvað þetta var hallærislegt og ég vorkenndi þessum strákum sem gátu ekki bara spilað sinn fótbolta í friði.

Ég stundaði mín áhugamál og foreldrum mínum var sama hvað ég gerði svo lengi sem ég var ekki að sniffa lím eða leggja önnur börn í einelti. Fyrir vikið þurfti ég ekki hvatningu til að leika mér.

Og ég held ég búi að því enn í dag.

(Ég sný útúr öllum spurningunum þínum, kæri stokkur. Sorrí)

 

23.01.21

What’s one conversation that transformed yout life?

Soldið bíómyndaleg spurning er það ekki, kæri stokkur? Eitt samtal og líf þitt er breytt. Eitt spjall. Vendipunkturinn kominn og þú verður fullorðinn.

Krass, búmm, bæng.

Er þetta ekki svolítil einföldun? Ertu ekki pínu amerískur núna? 

Almáttugur, þú ert svo yfirborðskenndur, kæri stokkur! Svo mikill frasakall.

… 

Það eru óþægilegu samtölin sem breyta lífi manns. Þegar fólk sem þekkir mann spyr, já og jafnvel yfirheyrir um hegðun manns og atferli. Eins og þegar móðir mín beið eftir mér um miðnætti eitthvert haustkvöldið ’89 og spurði mig: 

– Hvað í andskotanum varstu að gera og með hverjum?

Hún hafði fengið símhringingu frá eiganda Shell-sjoppunnar þar sem ég hafði brotist inn um klukkustund áður ásamt félögum mínum í hljómsveitinni Sabotage. Fórum inn á lagerinn og stálum fimm flöskum af appelsíni og Prins Póló. Litlum. Ég hugsaði mig um í fáeinar sekúndur, nógu margar til að mamma endurtæki spurninguna, enn hvassari í rómnum, og svo ældi ég útúr mér sannleikanum, sagði frá öllu og sagði til vina minna. 

Þetta var pretty fokking lærdómsríkt og ég er enn að súpa seyðið af þessu. Því alltaf, af og til, hugsa ég um það hvernig ég myndi bregðast við í hinum og þessum aðstæðum. Þetta er að sjálfsögðu ekki sambærilegt en hvernig myndi ég bregðast við ef hómófóbískir nasistar næðu völdum á Íslandi? Yrði ég jafn hrikalega frjálslyndur og ég þykist vera? Myndi ég þora því? 

Það er ekkert mál að vera róttæklingur og pönkari á Íslandi. Það er ekkert mál að vera ferlega liberal þegar alvöru afleiðingar eru nánast engar. Það er meira afrek að verða vegan í villimannasamfélaginu á Austurlandi og ég dáist að fólkinu sem lætur bara vaða og gefur skít í liðið sem ætlar sko barasta að borða hefðbundinn íslenskan heimilismat! 

Ég dáist sumsé að þessu fólki um leið og ég graðga í mig skinkusamloku.

 

22.01.21

Ég er eitthvað aðeins að fikta við smásagnaskrif og ég ætla að gerast svo djarfur að setja eina hér.

Baskahúfan

Þetta var í byrjun mars. Ég sat í eldhúsinu í blokkaríbúðinni minni í Bæjarlind, Kópavogi, með spjaldtölvuna fyrir framan mig. Klukkan var 8:17 þegar mér barst tölvupóstur úr netfanginu alfrun_hinrika (hja) harid.com.

Hann var svona:

Sæll Hreinn,

Þann 6. júní, sjómannadag, ætlar hópurinn okkar að hittast og fagna því að þrjátíu ár eru frá því að flest okkar staðfestu trú sína. Það væri okkur sönn ánægja ef þú þekktir boðið. Viltu vinsamlegast láta okkur vita fyrir 1. maí hvort þú komist. Þá reiknum við með þér í mat og gistingu og sendum þér greiðsluupplýsngar.

Fyrir hönd fermingarárgangsins 1984,

Með kærri kveðju,

Álfrún Dís Gunnarsdóttir
Hársnyrtir.

Þetta voru fyrstu samskipti mín við Álfrúnu í þrjátíu ár. Svo að segja fyrstu samskipti mín við nokkurn í árgangnum mínum í jafn langan tíma. Ef þetta voru þá samskipti.

Bréfið virtist staðlað. Nafnið mitt virtist kópípeistað.

Ég var sá eini í bekknum sem fermdist ekki. Og ég var kominn með hausverk.

Í þau örfáu skipti sem ég hef hitt fólk að austan hef ég haldið þeim „samskiptum“ stuttum en kurteisislegum. Slitið þeim við fyrsta mögulega tækifæri, afsakað mig og sagst vera á hraðferð. Stundum hef ég beinlínis forðast fólk, fært mig yfir á hinn vegarhelminginn, horfið inn í verslanir og nokkrum sinnum hef ég beinlínis hlaupið í skjól. Hef heyrt fótatakið nálgast þar sem ég hnipra mig saman í skjóli suðurkóreiskrar smábiðreiðar. Held í mér andanum og er að nálgast yfirlið þegar ég sleppi honum loksins. En þó ekki fyrr en þrammið þokast fjær. Og auðvitað hef ég hafnað öllum samskiptum á Facebook. Það segir sig sjálft. Ekki að vinabeiðnunum hafi beinlínis rignt inn en það er önnur saga.

Ég sá hana síðast á dansleik í ágúst 1990 aðeins nokkrum dögum áður en ég flutti suður. Þetta sumar höfðum við unnið saman í frystihúsinu og um það bil tíu mínútum áður en morgunkaffið hófst, rétt uppúr hálf tíu, lét ég mig hverfa úr tækjasalnum og hraðaði mér niðrí fatageymslu. Gekk beint að fatahenginu hennar, án nokkurs slórs, og nusaði af fötunum hennar. Ákaft. Eins og hvolpur. Svo slakaði ég á. Settist á bekkinn, lagði eldrauða baskahúfuna hennar yfir andlit mitt og hallaði mér aftur. Dró inn andann eins djúpt og ég gat, eins og þaulæfður kjallarameistari. Lét spennuna líða úr líkamanum.

Sígarettuangan og hársprey. Ungdómsilmur. Vöðvabólgan í öxlunum hvarf og það brakaði í hryggnum. 

Á dansleiknum drakk ég mig blindfullann. Hafði einsett mér að tala við hana. Ég gat nefnilega verið fyndinn og orðheppinn og kannski sæi hún það. Kannski fengi ég hana til að hlæja og hún myndi segja eitthvað eins og:

„Hreinn, þú ert frábær gaur!“ eða „Hreinn, þú kemur aldeilis á óvart!“

Það hefði verið nóg. Í bili að minnsta kosti.

Ég hitti hana hinsvegar ekki á ballinu. Ég sá hana ekki fyrr en síðar um nóttina eða eldsnemma um morguninn. Ég man það ekki nákvæmlega.
Það var dagbjört og fögur sumarnótt austur á fjörðum og ég ráfaði heim til mín, talandi við sjálfan mig. Langþreyttur af drykkju og djammi. Sólin lýsti upp fjallið sunnanmegin í firðinum, kastaði á það fallegum appelsínugulum lit og trilla skar spegilsléttan fjörðinn í tvennt. Ég heyrði í díselvélinni og sá trillukallinn ditta að einhverju á dekkinu. Mikið væri ég til í að vera þarna um borð, hugsaði ég. Hann virtist hafa allt undir kontról og dagurinn lá fyrir. Ég var bara nítján ára, enn þá hreinn sveinn, á leiðinni suður í háskólann. Ætlaði að læra viðskiptafræði og var hvorki kvíðinn né fullur tilhlökkunar. Ég var hvorki né. Bara alveg eins og í dag.

En það var þá sem ég heyrði bældan hlátur skammt frá mér og gusugang. Ég stóð fyrir ofan sundlaugina og allar hugsanir gufuðu upp þegar ég sá par í miðri lauginni í innilegum faðmlögum. Mögulega var það að stunda samfarir. Ég var ekki viss og það rann af mér.

Ég kraup og færði mig nær. Læddist. Skreið raunar þegar ég nálgaðist. Vildi nefnilega umfram allt bera kennsl á fólkið, fá nöfnin. Það skipti máli upp á framhaldið.

Umhverfis laugina voru grasstallar, afmarkaðir með grindverki neðst sem virkaði eins og rammi utan um laugina. Undir því steinsteyptur kantur. Ég sá fyrir mér að fela mig á bak við hann og njóta útsýnisins þegar færi gæfist. Innbyrða þetta til fulls. Mér var farið að blýstanda eins og þið getið ímyndað ykkur.

Það var rauða baskahúfan á sundbakkanum sem varð mér að falli því mér varð svo um þegar ég sá hana að ég hrasaði niður bakkann, flaug niður grasstallana í loftköstum og skall með höfuðið beint í steyptan kantinn. Steinrotaðist um leið og ég fékk það í nærbuxurnar. Vaknaði á sjúkrahúsi nokkrum dögum síðar en slapp sem betur fer við mjög alvarlegar heilaskemmdir.

Ég las bréfið einu sinni enn áður en ég eyddi því. Verkurinn var horfinn og ég var orðinn spólgraður.

 

21.01.21

Það snjóar og það snjóar og það er kærkomið. Birtir til og svo er þessi suddi eitthvað svo leiðingjarn til lengdar. Svo lítið sjarmerandi eitthvað.  

Fagna snjónum. It is tremendous, svo ég grípi til orðfæris DJT.

Innritaði mig á annað ritlistarnámskeið í EHÍ og núna hjá Kristjáni Hreinssyni. Fyrsti tími var í gærkvöldi og ég peppaðist allur upp. Veit ekki hvers vegna ég er ekki fyrir lifandis löngu byrjaður að sækja mér aðstoð í þessu. 

Eða jú. Ég veit það alveg. Ég er í skápnum, enn að brjótast út. Og þar fyrir utan hef ég tilhneigingu til að flækjast fyrir sjálfum mér, eins og góður vinur sagði eitt sinn við mig. 

Er að hlusta á kanadísku söngkonuna kd lang í vinnunni. Hlustaði mikið á hana fyrir tuttugu árum eða svo, þegar ég var að læra í Englandi, og það var notalegt að heyra röddina hennar aftur. Ingénue er nú sennilega með betri poppplötum þótt ég gleymi því stundum. 

Trump er hættur og farinn. Hvenær ætli maður byrji að sakna hans? Það er ávanabindandi að hneykslast og fyllast réttlátri reiði. Það lætur manni líða vel með sjálfan sig. Þetta eru bara vísindi, gott fólk. Bara vísindi.