Þegar maður spilar í óþekktri indígrúppu utanaflandi verður maður að sætta sig við að spila fyrir nær tómum sal trekk í trekk. En maður verður að læra að elska hið tragíska gigg annars er hætt við að maður leggist í þunglyndi og leggi trommukjuðana frá sér. Fari jafnvel að velta fyrir sér tilganginum með þessu öllu saman og þá er hættan vís því auðvitað er enginn tilgangur með þessu og tímanum er alltaf betur varið með börnunum eða í öðru sjálfboðastarfi fyrir bágstadda.
Og hvað skyldi ég nú eiga við með því?
Til dæmis þetta:
Á hátindi tónlistarferilsins, þarna á síðasta áratug aldarinnar sem leið, spilaði ég á balli með félögum mínum í félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði. Við byrjuðum að spila fljótlega eftir að fyrsti gesturinn mætti, karlmaður á miðjum aldri, vel slompaður, að líkindum setið að sumbli lengi. Hann pantaði sér grænan Tuborg á barnum, settist í eitt hornið þar sem hann drakk og þagði. Við renndum í gegnum fyrstu lögin á prógramminu, allskyns slagarar úr öllum áttum, spiluðum þau eins og sveitaballabönd utanaflandi geta ein gert, af einhvers konar ástríðufullu metnaðarleysi.
Um það bil hálftíma síðar mætti annar gestur, aðeins yngri en hinn, og settist með græna Tuborginn sinn í hitt hornið. Ljós hárlokkur sat sem límdur á sveittu enninu, hann var skvapholda og kinnrjóður, sá ekki betur en að hann haltraði. Frá trommupallinum leit hann því út eins og aukaleikari í kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson.
Þeir sátu þarna og supu úr glösunum sínum en sýndu lífsmark þegar við renndum í Brown eyed girl og slógu taktinn með fingurgómunum. Lagið hafði verið á prógramminu okkar lengi og vakti alltaf lukku, virtist geta lífgað hvaða lík sem var, sérstaklega þegar bandið stoppaði og söngvarinn stjórnaði dansgestum líkt og kór í sjalalala-kaflanum í outro-inu. Við létum það eiga sig að þessu sinni, gáfum okkur að þetta væru hvorki söng- né gleðimenn í ströngum skilningi þess orðs eða „lásum salinn“ eins og fagmennirnir segja. Sá eldri lyfti glasinu og kallaði til okkar en hann var þvoglumæltur og hljóðvistin í tómu félagsheimili slík að það er eins og gímaldið gleypi hið talaða orð og skili því aldrei. Við heyrðum því bara eitthvað eins og þvabaþaranþvaba og svo hló hann ógurlega og við gátum séð tennurnar standa úr kjálkabeininu eins og nöturlegt borgarlandslag.
Eftir um samfellt spilerí í klukkustund eða svo tókum við pásu og létum okkur hverfa inní bakherbergi. Rótarinn (því auðvitað vorum við með rótara) blandaði saman kaftein og kók (alltaf kafteinn og kók) og það var fremur þungt yfir okkur. Eins og Norðfirðinga er siður tíunduðum við í svekkelsinu okkar eðlisskipaða (ef það er orð) ágalla nágranna okkar. Eskfirðingar væru ljótir og leiðinlegir og mættu aldrei á böll. Allra síst ef tónlistarmenn úr tónlistarbænum mikla, hinum megin við fjallið, kæmu og heiðruðu þá með nærveru sinni. Niðurstaðan úr þessu spjalli okkar var sú að við myndum spila til tvö og slútta þessu svo.
En það var óþarfi því þegar við gengum inn á sviðið aftur stóðu mennirnir á miðju dansgólfinu og slógust. Sá yngri búinn að klóra þann eldri í framan og blóðga hann en enginn var svo sem í hættu og við hjálpuðum dyravörðunum að henda þeim út. Ballinu var sjálfhætt og við duttum í það í bakberberginu.
End of story.
…
Þetta er auðvitað lygasaga. Í besta falli byggð á trúverðugu eins og maðurinn sagði því mögulega spilaði ég einu sinni gigg á Eskifirði og það mætti enginn. Kannski tveir en þetta með slagsmálin er nær örugglega seinnitíma viðbót sem við bjuggum til svo úr yrði bransasaga. Þær eru gull og manni ber að flagga þeim í samskiptum við yngri poppara. Bera þær eins og heiðursmerki.
Og þegar ég sit við settið mitt í dag, fjörutíu og sex ára með vinum mínum í indíbandinu frá Norðfirði, fyrir framan tíu manns á Seyðisfirði, með lokuð augu, í geggjuðum fíling þegar brjálæðislegur endakaflinn í síðasta laginu nálgast crescendo og rennur svo sitt skeið á enda í old school ruslatunnueldi, cymbalar, gítaröskur og allt og við tekur hógvært og sundrað klapp á strjálningi, að þegar allt þetta er um garð gengið minni ég mig á að misheppnuð gigg eru alltaf miklu betri saga.