Ég veit það
ástin mín
að tíminn hefur liðið
í fullum bleium
svefnlausum nóttum
og sjónvarpsseríum
á Netflix
sem við munum aldrei
geta rifjað upp
hvernig enduðu
hann hefur liðið
í biluðum kaffivélum
úrsérgengnum
jólaseríum
og í labbitúrum
um ófrágengna vegi
sem enda
eins og upp úr þurru
og minna okkur á
hugsanir
sem drekkt er
í fæðingu
þegar ungviðið hrópar
BÚÚÚÚIIIINNNNNNN…
skýrleiksaugnablikin
eru bæði fá og stutt
og við þurfum að
fanga þau
með blekpennum
og símamyndavélum
því þrátt fyrir allt
er hún svo alltumlykjandi
þessi tilfinning
um að dag einn
munum við líta til baka
og sjá
svo ekki verður um villst
að þetta var
gullöldin