Á hinsta degi

Kjarnorkuvetur
hefur brostið á
og þrjátíu og fimm ára gömul
unglingamartröð
er orðin jafn raunveruleg
og frunsa
á óheppilegum stað

að morgni
okkar hinsta dags
austur á heimsenda
vaknaði ég
úfinn
staulaðist fram úr
svefndrukkinn
og passaði
að vekja ekki konuna mína
sem sefur lengur en ég
sökum aldursmunar

létti á mér
og strauk af mér
uppþornaðan sleftaum
við hægra munnvikið

var þvagið grunsamlegt á litinn?
var þetta nýr verkur
aftan við vinstra herðablaðið?

hellti upp á kaffi
og stakk upp í mig
döðlu
rétti úr mér
voðalega brakaði einkennilega
í hryggsúlunni
ætti ég kannski að fara til hnykkjara?

aldrei grunaði mig

á hinsta degi
með ískyggilega
ofbirtuna í augunum
yrðu áhyggjur mínar
svona ómerkilegar
lítilfjörlegar
en umfram allt

hversdagslegar

 

jonknutur