Kinnhesturinn

Ég hef aldrei lent í slagsmálum. Verið hótað eins og gengur og gerist af fullu fólki fyrir utan skemmtistaði en aldrei lamið neinn eða verið laminn af neinu viti. Ég er ekki bara heppinn því ég hef vísvitandi forðast slagsmál. Mér er illa við þau og í raun bara dauðhræddur.  

*

Ég heyrði sögur af pabba og bróður hans í áflogum upp í Atlavík og hér og þar og alls staðar. Sagan af því þegar föður mínum var hent í grjótið eftir stimpingar á bar í Grimsby var t.d. stundum rifjuð upp í beituskúrnum, einkum af Dóra frænda mínum, en sögurnar heyrði ég miklu frekar frá fólki út í bæ. Í hugum sumra var þeirra greinilega minnst sem slagsmálahunda og það var ekki bara talað um þá af lotningu heldur var eins og þeir væru dánir.

En ég var alger eftirbátur þeirra og ég skammaðist mín fyrir það. Ungur karl í sjávarplássi á ekki að vera hræddur við að gefa á kjaftinn. Eða fá á kjaftinn ef því er að skipta. Að lenda í ryskingum eða slagsmálum var vígsluathöfn, ekki ósvipað því að missa sveindóminn eða drekka sig fullan í fyrsta skipti. Með því að lemja eða verða laminn yrði maður loksins karl í krapinu. Og þá kannski kæmist maður loksins í sleik.  

 *

Ég gat ekki hafið mig upp yfir þennan kúltúr, vantaði enn nokkur ár af þroska, og einhvern tímann á stéttinni fyrir neðan Egilsbúð, eftir dansleik með Geirmundi eða einhverjum, sá ég mér leik á borði. Það opnaðist glufa fyrir þátttöku í, að því er virtist, fremur öruggum bardaga. Hið verðandi fórnarlamb, danskur maður sem stóð út á miðri götu og reifst við einhverja heimamenn, virtist auðveld bráð.

Þetta var hægðarleikur. Sigurinn vís.   

Ég gekk því að hópnum, fullur sjálfstrausts, og hófst handa við að gera mig digran en var varla búinn að opna munninn þegar Daninn sneri sér að mér og í stað þess að gefa mér á kjaftinn, sem ég var ómeðvitað að vona, þá löðrungaði hann mig. Svona eins og hann tímdi ekki almennilega að gefa mér á hann.

Ég var að sjálfsögðu ekki meiddur en mig sveið undan þessu.

Einkum á sálinni.

 

Sýróp

Ég hleyp tólf kílómetra á dag til að stemma stigu við gengdarlausu ofáti hátíðarinnar. Ég hef borðað meira sælgæti á einni viku en ég hef gert í hálft ár (ég hef lést muniði). Finn til í hnjám og ökklum en tengi öll óþægindi í líkamanum við yfirvofandi hjartaáfall. Er of latur og værukær til að verða hræddur. 

Þetta er ekki sjálfbært. Ég get ekki hlaupið frá þessu. Og ég veit að brátt verð ég að kveðja líf óhófs og græðgi.

Það er ekki að ástæðulausu sem fólk strengir áramótaheit eftir jól.  

Óhófið kemur líka fram í tónlistinni sem ég hlusta á þessa dagana. Hún er jafn þrútin og andlit mitt þessa dagana. Í gær, þegar ég mokaði bílastæðið og hengdi úr þvottavélinni í óvæntum og skyndilegum myndugleika, hlustaði ég á Tales from Topographic Oceans, hinu brátt fimmtuga tvöfalda albúmi, sem hljómsveitin Yes gaf út á hátindi framsækninnar um miðbik áttunda áratugarins. Böðuð í mellotróni, pólýriðmum og dulmögnuðum textum.

Fjögur lög, tuttugu mínútur hvert. Lengi má manninn reyna. 

Þetta er hitaeiningarík rokktónlist en hún skilur lítið eftir og þykir í raun með því versta sem stefnan gat af sér. Ég veit þetta allt saman. Þetta er pasta. Þetta er lakkrístoppur. En í augnablikinu er mér sama. Ég mun taka upp betri hlustunarsiði þegar ég skipti konfektinu út fyrir salatið.

 

Minnisbrot um verbúðina

Eins og allir hinir horfði ég á Verbúðina en ég get ekki tekið þátt í umræðum um hvort þetta hafi verið trúverðug mynd af þorpi útá landi árið 1983. Ég var átta ára og lék mér enn með tindáta. Þekkingaleysi mitt á verbúðarlífi er algjört. Þekki það af afspurn, í gegnum kvikmyndina Nýtt líf og lögin hans Bubba.

*

Nema hvað að auðvitað á ég eitt minnisbrot um verbúðina heima á Norðfirði sem kölluð var Stjarnan og stóð á eyrinni þar sem núna er leikskóli norðfirskra barna. Ég man ekki hvað ég var gamall. Reyndi að fletta þessu upp á netinu en gafst upp. Hafði ekki tíma eða nennti ekki að finna útúr þessu. Annað hvort eða bæði. En ég var ekki orðinn unglingur, held ég, og ekki var ég barn. Ég var einhvers staðar þarna á milli. Of ungur til að vita nokkuð um verbúðina og verbúðarfólkið en nógu gamall til að vera úti að kvöldi til án þess að nokkur ræki mig heim.  

Og mér finnst líklegt að ég hafi ekki verið einn. Mér finnst líklegt að ég hafi staðið þarna með Kela bróður mínum og fylgst með og já, svo ég komi því að, þá var sumsé kviknað í Stjörnunni. Reykur barst út um risgluggann og það var erill fyrir utan hið brennandi hús þar sem slökkviliðsmenn voru að athafna sig. Íbúar þess búnir að safnast saman í einum hnapp steinsnar frá, fylgdust með björgunarstörfum, bæjarbúar á stangli hér og hvar, loksins eitthvað að gerast. 

Það sem ég vissi var þetta: Þarna búa útlendingar en í minningunni þekki ég einn í hópnum. Ég þykist muna eftir Andra náfrænda mínum og í þessu minningarleiftri heldur hann á tertusneið. Kannski var þetta afmælispartí sem fór aðeins úr böndunum? 

Það gæti verið. En það gæti líka vel verið að þetta hafi ekki gerst, að þetta minnisbrot af Andra og tertusneiðinni sé tilbúningur. Hann var bara þessi týpa sem hékk með verbúðarliði og hefði getað staðið fyrir utan brennandi hús og spilað á fiðlu. Frásagnargleði bæjarbúa svo séð um rest.

Annað eins hefur gerst.   

*

En ég hef stundum hugsað um það hverju ég myndi bjarga ef það væri kviknað í heima hjá mér, svona ef undanskilin eru börn, eiginkona og gæludýr. Gefum okkur að búið sé að bjarga öllu kviku og ég fengi einn séns til að fara inn í brennandi húsið og bjarga einum hlut. Væri þá í alvörunni nokkuð svo galið að bjarga tertunni?

 

Hið tragíska gigg

Þegar maður spilar í óþekktri indígrúppu utanaflandi verður maður að sætta sig við að spila fyrir nær tómum sal trekk í trekk. En maður verður að læra að elska hið tragíska gigg annars er hætt við að maður leggist í þunglyndi og leggi trommukjuðana frá sér. Fari jafnvel að velta fyrir sér tilganginum með þessu öllu saman og þá er hættan vís því auðvitað er enginn tilgangur með þessu og tímanum er alltaf betur varið með börnunum eða í öðru sjálfboðastarfi fyrir bágstadda. 

Og hvað skyldi ég nú eiga við með því?

Til dæmis þetta: 

Á hátindi tónlistarferilsins, þarna á síðasta áratug aldarinnar sem leið, spilaði ég á balli með félögum mínum í félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði. Við byrjuðum að spila fljótlega eftir að fyrsti gesturinn mætti, karlmaður á miðjum aldri, vel slompaður, að líkindum setið að sumbli lengi. Hann pantaði sér grænan Tuborg á barnum, settist í eitt hornið þar sem hann drakk og þagði. Við renndum í gegnum fyrstu lögin á prógramminu, allskyns slagarar úr öllum áttum, spiluðum þau eins og sveitaballabönd utanaflandi geta ein gert, af einhvers konar ástríðufullu metnaðarleysi. 

Um það bil hálftíma síðar mætti annar gestur, aðeins yngri en hinn, og settist með græna Tuborginn sinn í hitt hornið. Ljós hárlokkur sat sem límdur á sveittu enninu, hann var skvapholda og kinnrjóður, sá ekki betur en að hann haltraði. Frá trommupallinum leit hann því út eins og aukaleikari í kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson. 

Þeir sátu þarna og supu úr glösunum sínum en sýndu lífsmark þegar við renndum í Brown eyed girl og slógu taktinn með fingurgómunum. Lagið hafði verið á prógramminu okkar lengi og vakti alltaf lukku, virtist geta lífgað hvaða lík sem var, sérstaklega þegar bandið stoppaði og söngvarinn stjórnaði dansgestum líkt og kór í sjalalala-kaflanum í outro-inu. Við létum það eiga sig að þessu sinni, gáfum okkur að þetta væru hvorki söng- né gleðimenn í ströngum skilningi þess orðs eða „lásum salinn“ eins og fagmennirnir segja. Sá eldri lyfti glasinu og kallaði til okkar en hann var þvoglumæltur og hljóðvistin í tómu félagsheimili slík að það er eins og gímaldið gleypi hið talaða orð og skili því aldrei. Við heyrðum því bara eitthvað eins og þvabaþaranþvaba og svo hló hann ógurlega og við gátum séð tennurnar standa úr kjálkabeininu eins og nöturlegt borgarlandslag.

Eftir um samfellt spilerí í klukkustund eða svo tókum við pásu og létum okkur hverfa inní bakherbergi. Rótarinn (því auðvitað vorum við með rótara) blandaði saman kaftein og kók (alltaf kafteinn og kók) og það var fremur þungt yfir okkur. Eins og Norðfirðinga er siður tíunduðum við í svekkelsinu okkar eðlisskipaða (ef það er orð) ágalla nágranna okkar. Eskfirðingar væru ljótir og leiðinlegir og mættu aldrei á böll. Allra síst ef tónlistarmenn úr tónlistarbænum mikla, hinum megin við fjallið, kæmu og heiðruðu þá með nærveru sinni. Niðurstaðan úr þessu spjalli okkar var sú að við myndum spila til tvö og slútta þessu svo. 

En það var óþarfi því þegar við gengum inn á sviðið aftur stóðu mennirnir á miðju dansgólfinu og slógust. Sá yngri búinn að klóra þann eldri í framan og blóðga hann en enginn var svo sem í hættu og við hjálpuðum dyravörðunum að henda þeim út. Ballinu var sjálfhætt og við duttum í það í bakberberginu. 

End of story. 

Þetta er auðvitað lygasaga. Í besta falli byggð á trúverðugu eins og maðurinn sagði því mögulega spilaði ég einu sinni gigg á Eskifirði og það mætti enginn. Kannski tveir en þetta með slagsmálin er nær örugglega seinnitíma viðbót sem við bjuggum til svo úr yrði bransasaga. Þær eru gull og manni ber að flagga þeim í samskiptum við yngri poppara. Bera þær eins og heiðursmerki.

Og þegar ég sit við settið mitt í dag, fjörutíu og sex ára með vinum mínum í indíbandinu frá Norðfirði, fyrir framan tíu manns á Seyðisfirði, með lokuð augu, í geggjuðum fíling þegar brjálæðislegur endakaflinn í síðasta laginu nálgast crescendo og rennur svo sitt skeið á enda í old school ruslatunnueldi, cymbalar, gítaröskur og allt og við tekur hógvært og sundrað klapp á strjálningi, að þegar allt þetta er um garð gengið minni ég mig á að misheppnuð gigg eru alltaf miklu betri saga.

 

Á hraðferð

Ég er á hraðferð því dagurinn er tékklisti og ég er ekki einu sinni búinn með helminginn. Ég er á hraðferð en dóttir mín stendur grátandi á miðju stofugólfinu því skólabróður hennar drap býflugu sem hún hafði nært með sykurmola í laumi í frímínútunum. Hvernig get ég lagt allt frá mér þegar ég á eftir að steikja fiskinn, leggja inn umsókn um endurfjármögnunum húsnæðislánanna okkar hjá sparisjóðnum, fara með fatakassann í Rauða krossinn, já, og setjast svo niður og finna ljóðrænuna í öllu heila klabbinu?

 

Böbblí, þögla kynslóðin og feiti Elvis

Því verður bara ekki neitað, eiginlega ekki hægt, afneitun að halda öðru fram, að það getur verið erfitt að halda úti bloggi þegar maður er fjörutíu og sex ára, tveggja barna faðir, eiginmaður og skrifstofukall. Já, og maður er hamingjusamur og bara nokkuð sáttur við lífið og tilveruna. Fátt sem raskar þessu. Allra síst Covid sem breytti engu fyrir barnafólk eins og okkur. Fastar skorður urðu bara aðeins fastari, hið daglega líf varð pínu hversdagslegra, vanagangurinn ívið venjulegri.

Við drekkum böbblí í búbblunni nær alla daga og það er einfaldlega ekki, bara hreint ekki, í frásögur færandi. 

Foreldrahlutverkið þroskar mann um leið og það yngir mann. Eða svo var mér sagt. Stundum finnst mér miklu augljósara hvernig þetta hlutverk hraðar miðöldrun minni. Einhverjir svona pabbabrandarar vella uppúr mér og ég er ekki einu sinni lengur að reyna. Ég myndi deila þeim með þér ef ég myndi þá en ég læt þá flakka á jafn vélrænan hátt og ég dreg andann, eins og einhver instant reflex þegar dóttir mín spyr mig að einhverju, gerir athugasemd við eitthvað eða bara segir eitthvað sniðugt. Svo sofna ég fljótlega eftir fréttir, kann ekki lengur almennilega á Instagram og mér finnst bara fáránlega næs að hlusta Noruh Jones og lesa góða bók.

Þannig að já. Ég verð leiðinlegri með degi hverjum.

… 

En ég ólst upp hjá fulltrúum „þöglu“ kynslóðarinnar, fólki sem fæddist í miðju seinna stríði og þetta skiptir máli. Það er mikill munur á því og fólki sem tilheyrir ´68 kynslóðinni. Þetta er ekki fólkið sem kippir með sér nýju ABBA á CD í Costco. Mamma er t.d. nýbúin að „erfa“ mig, eins og hún segir, að þreföldu eða fjórföldu albúmi með lestri á Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson. Ég fæ safnið eftir hennar dag og það kom mér svo á óvart hvað ég varð spenntur. Ég bara get ekki beðið!!!

Ég held að þetta tengist þ.e. þetta með miðöldrun mína og uppeldið. Sem gamall maður verð ég líkari foreldrum mínum en fólki sem er nær mér í aldri t.d. fyrrnefnd ’68 kynslóð.

Svo að:

Ég verð gamall maður eins og Jón Gnarr ímyndar sér gamalt fólk.  

Þetta er eitthvað til að hugsa um og hlakka til. 

Ég er búinn að léttast í Covid. Einn fárra. Held matardagbók, tel hita-einingar, tel oní mig hvern einasta helvítis munnbita og hef skroppið saman um fjórðung á sirka tíu mánuðum. No joke. Fat Elvis-tímabilinu er formlega lokið.

Furðulegasta fólk finnur sig knúið til að ræða þetta við mig, gera athugasemdir, hrósa mér og stundum finnst mér eins fólk sé að skamma mig, eins og ég hafi svikið lit, fat shaming með öfugum formerkjum: „Hva, þú ert ekki að verða að neinu?!“, „hva, færðu ekkert að borða heima hjá þér?!“ „hva, voðalega ertu orðinn horaður!“, „hva, þú ert ekkert nema pungurinn og eyrun!“

„Já,“ svara ég áhyggjufullur. „Ég á von á niðurstöðu í fyrramálið.“

 

Bernskuminning

Við erum fjögurra ára
kannski fimm
man það ekki alveg
(vonandi ekki eldri)

við drífum nokkuð langt
eða frá miðju gólfi
að þvottavélinni
sem stendur við vegginn

strengurinn lendir á glerinu
og froðukennd smákvísl
rennur með hægð
í átt að niðurfallinu

við tökum þetta alvarlega
enginn gassagangur
stöndum bara
hlið við hlið
rjóðir
og sprænum einbeittir

man ekki hvor vann
veit bara
að pissukeppninni
á milli okkar

er ekki enn lokið

 

Svolítið þungur í morgunsárið

það er lægð yfir landinu
og í hvert sinn
sem ég opna bók
eftir gyrði
sigurð páls
nú eða ingunni snædal
blasir það við mér
mitt hrópandi hæfileikaleysi

miðvikudagskvöldið
var svo
sérstaklega erfitt
því allir voru að meika það
í kiljunni

hvernig ég drattaðist á fætur í morgun
var ekkert minna en kraftaverk!
eins og þú getur
rétt ímyndað þér

en ég beiti mig hörku
endurtek í hljóði
líkt og möntru
mér til sáluhjálpar
að jafnvel gyrðir
leysir vind í laumi
og roðnar

að viðbættu
er ég nokkuð viss um
að ingunn snædal hefur
orðið sér
og öðrum
til skammar
á mannamótum

 

A5

(Fyrir Murakami)

Það sem ég hugsa um

er ég hleyp

kemst oftast fyrir

á einum dreifimiða

 

868 1458

Pabbi er að hringja og vegna þess

að hann hringir ekki oft

svara ég

 

Hann hefur ekkert að segja

en vill spjalla

 

Ég er soldið upptekinn í vinnunni

pabbi minn

hringi í þig síðar

 

Ég man ekki hvað ég var að gera þarna í vinnunni

tveimur dögum áður en hann dó

 

Man bara

að ég nennti ekki að tala við hann