Ég las ljóð

Jólabókin mín í ár var eftir ljóðskáldið Eydísi Blöndal sem ber heitir Ég brotna 100% niður. Búinn að lesa hana einu sinni og á eftir að lesa hana nokkrum sinnum. Þannig finnst mér best að lesa ljóð. Svona eins og að skrifa texta. Hann þarf að endurskrifa og ljóð þarf að endurlesa. Þannig síga þau hljóðlega til botns. Eða allt að því. Sumt les maður aftur og aftur og skilur ekki baun og stundum er það bara alltílæ. Stundum er bara gaman að lesa góðan stíl.  

En þetta eru ekki þannig ljóð. Þau eru falleg, einföld, einlæg og á nokkrum stöðum mjög áhrifarík. 

Og um hvað fjalla þau?

Það sem er augljósast, það sem blasir við manni eftir fyrsta lestur eru pælingar um sjálfið á tímum samfélagsmiðla. Hvernig við högum okkur á eins og leikarar á sviði, sækjum viðurkenninguna í lækin og kommentin. Lífið er sviðslist. Við erum sífellt að bregast við og það er lítið mál að týna sjálfum sér ef við pössum okkur ekki.   

Þetta kallast á við félagsfræðina sem mér fannst áhugaverðust hér í denn. Goffman og þetta lið sem ég hreifst af þegar Marx, Weber, og Durkheim sleppti. Þetta eru hollar pælingar og Goffman hafði tölvuvert mikil áhrif á mig á sínum tíma. Sennilega varanlegri áhrif en margt annað sem ég las í Bókhlöðunni um árið. 

Er tilvera einhvern tímann ekki performans? segir í bókinni hennar Eydísar og Goffman spurði að þessu líka en vegna þess að hann var fræðimaður en ekki skáld þá svaraði hann spurningunni líka: 

Við erum leikarar á sviði, sinnum allskyns hlutverkum, erum allt í senn: foreldrar, skrifstofufólk, makar, og svo framvegis.  En svo er til eitthvað sem kallast baksvið og þar slökum við loksins á. Erum við sjálf.  

En það er þetta með sjálfið. Það minnir á flughála brekku og maður rennur á rassgatið um leið og maður reynir að grípa það og skilja.

Aðstæðubundnara fyrirbæri vandfundið. 

*

Við forðumst tómið eins og heitan eldinn. Held að þetta sé haft eftir Marlon Brando og ég held líka að þetta sé bara laukrétt hjá manninum. Hvenær er biðin eftir einhverju svo löng að þú freistist ekki í símann? Opnir ekki bók? Setjir ekki plötu á fóninn? Troðir ekki upp í þig konfektmola? Kveikir ekki á sjónvarpinu? Sýpur ekki Pepsi-Maxið? 

Hvenær er innri friðurinn svo mikill að þú farir í fullri sátt við guð og menn upp í sófa, með heilanum þínum gráa, og hugsir ekki neitt?

Svo að segja aldrei. 

Akkúrat!

Góð ljóðabók. Eins hressandi og double espressó.

 

jonknutur