Þegar ég var í Leicester tók ég hlutverk Íslendingsins mjög alvarlega. Ef það þurfti einhver í partíinu að gera sig að fífli tók ég það að mér umhugsunarlaust. Þetta gerði ég á úthugsaðan hátt. Ég vissi að mér myndi ganga vel í náminu (ég var í stuði til að læra í Englandi) en sigurinn yrði enn sætari ef meðnemendur mínir héldu að ég hefði nákvæmlega ekkert fyrir þessu. Ég vann því hörðum höndum að því að byggja upp ímynd hins akademíska villimanns.

 

Antonis

Ég fékk tölvupóst frá gömlum vini í gær. Hann heitir Antonis Foukarakis og ég kynntist honum úti í Leicester snemma árs 2001. Ég hafði ekki heyrt í honum í rúm þrjú ár, eða frá því að ég hitti hann í Aþenu í maí 2003. Þetta var svosem ekkert merkilegt bréf í þeim skilningi að það var ekkert mikið, ef nokkuð, að frétta af honum. Hann var enn að vinna í doktorsritgerðinni sem hann hafði verið að vinna í í þrjú ár þegar við kynntumst. “Its make it or break it,” skrifaði hann og ég hugsa að síðari kosturinn verði fyrir valinu ef ég þekki þennan gamla vin minn rétt. Ég er ekkert að slengja þessu fram í einhverju kæruleysi. Það eru ástæður fyrir þessari skoðun:

Í fyrsta lagi var hann nefnilega eins og landi sinn, hann Sókrates, bestur í samræðum, hann var bestur á kaffihúsi. Hann var í essinu sínu þegar hann vafði sígarettur og drakk rótsterkt grískt kaffi. Ég man að hann var lengi að vefja sér sígarettur, stundum allt uppí fimm mínútur, en þær voru svo vel vafðar að enginn maskína hefði nokkurn tímann geta gert betur. “Geturðu vafið eina handa mér,” bað maður þegar hann var búinn að vefja handa sjálfum sér, svona í og með að grínast, en Antonis skildi ekki svona nastí og tilgangslaust grín og vafði síðan handa manni eina sígarettu á meðan hann útlistaði í smáatriðum hvenær og hvers vegna Woody Allen missti mojoið.

Hann tók sem sagt allt alvarlega. Alltof alvarlega.

Í öðru lagi: Ef Antonis gat valið á milli þess að gefa manni löngu eða stuttu útgáfuna á einhverju álitamáli sem hann hafði skoðun á valdi hann alltaf löngu og flóknu útgáfuna, sem var full af meðvituðum mótsögnum og sub-álitamálum.

Doktorsritgerð gæti hann því aldrei skrifað því slíkt form væri of knappt fyrir hann.

Hefði ég ekki byrjað með meðleigjanda Antonisar hefði aldrei kynnst honum utan kennslustofunnar. Í kennslustofunni var Antonis yfirvegaður akademíkus og einn af þeim fáu sem kom með athugasemdir eða spurningar sem skiptu einhverju máli. Og það sem meira var: Hann vissi ekki svörin fyrirfram. Hann spurði af því að hann var raunverulega forvitinn sem er einkenni á greindu fólki. Þegar Antonis talaði, talaði hann hægt og bar fram hvert einasta orð þannig að það átti ekki að vera hægt að misskilja hann. Hann var maður rökræðunnar og fílaði Habermas í botn.

Hann vaknaði yfirleitt aldrei fyrr en um hádegi. Ég heyrði þegar hann vaknaði, ég heyrði þegar hann dró lappirnar eftir teppinu inn á klósett. Þar sat hann oft í dágóða stund. Ég spurði hann auðvitað aldrei að því en mér finnst líklegt að hann hafi lesið dagblöðin (var áskrifandi af The Guardian). Þegar hann kom niður í stofu kastaði hann kveðju til manns – ekki glaður, ekki morgunfúll, bara í einhverju minnibilsástandi sem varði þangað til hann skrapp út um tvöleytið í körfubolta – þjóðaríþrótt Grikkja. Hann spilaði einn enda þoldi hann ekki Grikki. “Þetta eru bara ónytjungar og letingjar,” sagði hann. Einu sinni fór hann að lyfta með mér en fannst það undarleg reynsla: “Skrýtið hvernig Norður-Evrópubúar stunda líkamsrækt. Það er eins og þið séuð að refsa ykkur? Er þetta siðfræði mótmælendatrúarinnar?”

Antonis var kannski ekki þunglyndur en hann var þjakaður af einsemd – hann var einmana. Kærastan hans til margra ára varð eftir í Aþenu þegar hann yfirgaf Grikkland og ári áður en ég kynntist Antonis hafði hún slitið sambandinu. Antonis var ekki enn búinn að jafna sig enda hafði hann ekki um neitt annað að hugsa. Ekki hugsaði hann um doktorsnámið. Það var víst.

Einmanaleikinn sem hrjáði Antonis kom fram í gengdarlausri söfnunaráráttu. Hann safnaði allskyns hlutum, ljósmyndum úr dagblöðum, geisladiskum, tölvuleikjum en safnið sem hann var stoltastur af var VHS-safnið sem þakti alla veggi stofunnar og fyllti svefnherbergið hans. Hann var áskrifandi af einhverri kvikmyndastöð og á hverjum degi tók hann upp að minnsta kosti eina mynd. Þetta voru flest allt myndir eftir leikstjóra sem ég kannaðist ekki við en ég man að Woody Allen og Jim Jarmusch voru í sérstöku uppáhaldi. Þið hefðuð allavega ekki fundið neinar myndir eftir George Lucas í safninu.

En ég sá hann hins vegar mjög sjaldan horfa á þessari myndir. Hann horfði bara á spólurnar sjálfar og horfði á safnið stækka. Þetta var býsna dapurlegt svona eftir á að hyggja.

Nú. Svo að þið fáið réttari mynd af vini mínir verður eiginlega að koma fram hér að einsemd og vanlíðan vinar míns stafaði ekki einungis af ástarsorg. Vandamál vinar míns voru af öðru tagi líka.

Ástæðan fyrir því að Antonis ákvað að yfirgefa kærustu sína í Aþenu var opinberlega sú að hann ætlaði að sækja sér menntun. En undir niðri var önnur ástæða. Hann var að flýja herskyldu. Námið hafði veitt honum undanþágu í nokkur ár en skrifstofa hersins var þegar byrjuð að plaga hann og spyrja hvenær hann kæmi heim og hvort hann gæti byrjað þá um sumarið.

Antonis sá fyrir sér að hann yrði lagður í einelti í hernum. “Ég veit alveg hvernig týpur þetta eru sem eru í þessu,” sagði hann einu sinni við mig. “Þetta eru strákar eins og eru með okkur í bekk, rugludallar sem hafa gaman af að skjóta úr byssu. Þessi vist verður algert helvíti fyrir náunga eins og mig.”

Ótti Antonisar við herinn átti eftir að draga hann út í miklu meiri vandræði síðar. Þegar ég hitti hann í Aþenu í maí 2003 var hann nýbúinn að gefast upp og hafði gefið sig fram við heryfirvöld nokkrum dögum fyrr: “Herinn var byrjaður að leita að mér og ég hefði ég ekki gefið mig fram núna hefði ég getað átt fangelsisvist yfir höfði mér,” sagði vinur minn þar sem við sátum á rándýru kaffihúsi neðan við Akrópólíshæð (“Dæmigert fyrir túrista að velja svona stað,” sagði hann hálf svekktur útí mig þó við værum að hittast í fyrsta sinn í tvö ár). “Pabbi laumaði mér inn á krappameinsdeildina sem hann vinnur á og með þetta lið í kringum mig emjandi af sársauka sá ég að ég yrði taka á þessu. Annað hvort færi ég í herinn eða gerði mér upp samkynhneigð. Seinni kosturinn kom ekki til greina. Ég geri foreldrum mínum það ekki.”

Seinna frétti ég frá vinkonu hans að á þessum tveimur árum í hernum hefði Antonis haft umsjón með litlu bókasafni í lítilli herstöð á Krít. Honum leið vel í fyrsta sinn í mörg ár.

En þó ég segi sjálfur frá reyndist ég vera betri en enginn fyrir Antonis. Ég varð einhvers konar útgönguleið fyrir hann því í gegnum mig kynntist hann fólkinu sem ég leigði með og ótrúlegt en satt voru ekki allir Grikkir hálfvitar. Þarna kynntist hann meðal annars Evu Fotiadi, stelpu frá Aþenu, sem bjó í sama stigagangi og ég. Eva varð fljótlega nýtt áhyggjuefni fyrir vin minn. Eiginlega varð hún þráhyggja og dró fram breyskleika vinar míns í sinni ýktustu mynd.

En fyrst nokkur orð um Evu. Antonis valdi hana ekki af neinu handahófi.

Þegar ég hitti

En Antonis var raunverulega ánægður að kynnast mér held ég. Ekki endilega af því að ég væri svona gefandi og skemmtilegur félagsskapur heldur sá hann í mér útgönguleið. Hann sá fyrir sér að í gegnum mig gæti hann kynnst fólkinu, ekki síst stelpunum, sem ég bjó með.

 

Gunnar ritstjóri sat þögull á skrifstofu sinni. Klukkan var orðinn fjögur og það var föstudagur. Undir öllum venjulegum kringumstæðum átti hann að vera farinn heim til konu sinnar sem var vön að elda uppáhaldsréttin hans á föstudögum, svikin héra með kartöflusalati og sérlega sætri kartöflumús. Gerður kona hans var að mörgu leyti hin fullkomna húsmóðir og var Gunnari alltaf til handar hvernig sem á stóð. Þegar honum hefði gengið illa að skrifa kom hún honum alltaf til hjálpar og rifjaði upp möndruna um að flestir rithöfundar skrifuðu sín bestu verk eftir fertugt og tók síðan nafna hans Gunnarsson sem dæmi. Hann hafði sjálfur notað þessa möndru í nítján ár eða allt frá því að hann ákvað að gerast rithöfundur.

Hann var einn á skrifstofunni en Erna framkvæmdastjóri hafði farið um tvöleytið af því að henni var “illt í maganum”. Erna var margt en fyrst og fremst var hún sjúklingur og hafði á þeim fimmtán árum sem þau höfðu unnið saman fengið flesta sjúkdóma sem heimilislæknirinn kunni að greina. Fyrstu árin hafði Gunnar látið þetta fara í taugarnar á sér, honum fannst þetta vera hegðun sem sæmdi ekki landsbyggðarkonu, en svo smám saman hætti hann að pæla í þessu því þetta truflaði einbeitinguna hans.

Hann stóð upp og fór fram í eldhús og lagaði rótsterkt kaffi og settist svo aftur við tölvuna sína og fór á netið. Hann kíkti inn á Rithringinn til að sjá hvort einhvern hefði kommentað á nýjustu smásöguna sína sem hét Vindurinn og var í raun nokkurs konar vinjetta, óður til lífsins úti á landi eins og reyndar flestar sögurnar hans.

Enginn hafði gert athugasemd við söguna þó hún hefði verið þar fimm vikur fyrir utan einhvern Viktor sem hrósaði honum fyrir góða stafsetningu. Það lifnaði aðeins yfir honum en þetta var sossum ekki í fyrsta skipti sem honum var hrósað fyrir góða stafsetningu. Í grunnskóla hafði hann aldrei fengið minna en níu í íslensku og fékk við útskrift í menntaskóla sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íslensku, gott ef það var ekki orðað svo að hann væri “einstaklega næmur á hrynjanda og vald hinnar íslensku tungu” og kennarinn hans hafði sagt við hann í lokahófinu að hann væri “meiriháttar stílisti”. Viðurkenningin hékk á veggnum fyrir framan hann ásamt öðru sem honum þ´tto meira að segja enn vænna um en það var viðurkenningarskjal frá sveitarfélaginu. Hann, sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Lundans, héraðsfréttablaðs Lundavíkur, hafði í sumar, nánar tiltekið á sjómannadaginn, fengið samfélagsverðlaun frá sveitarfélaginu fyrir “jákvæðan fréttaflutning af landsbyggðinni á erfiðum tímum” eins og stóð á plöggunum.

Í ræðunni sem bæjarstjórinn hélt sagði hann um Gunnar að hvert sveitarfélag hefði þörf fyrir menn eins og hann sem bentu á hið fallega í umhverfinu þegar æsifréttablöðin fyrir sunnan veltu sér upp fólksfækkun og uppsögunum í frystihúsum. Gunnar hefði verið óþreytandi með jákvæðum og uppbyggilegum fréttaflutningi í þau fimmtán ár sem hann hefði gegnnt starfi ritstjórans. Gunnar tók auðvitað íslensk mál háalvarlega og í eina skiptið sem hann tók sér veikindafrí hjá Lundanum í eina viku var þegar hann skrifaði sögnina að tína, s.b. að tína ber, með ufsiloni þ.e. að týna. Blaðið kom út vikulega á hverjum fimmtudagsmorgni og um hádegið þegar Gunnar var að fara í mat hringdi kona úr frystihúsinu og benti honum á þetta. Gunnar mótmælti þessu vitanlega og benti konunni vinsamlegast á að hann hefði nú fengið viðurkenningu í menntaskóla fyrir íslensku þannig að hann vissi nú líklega betur um þessi mál. Konan baðst afsökunar en um leið og Gunnar hafði lagt á fletti hann upp í orðabók menningarsjóðs og sá að hún hefði haft rétt fyrir sér. Sem fyrr segir var Gunnar frá í viku en þegar hann kom aftur tókst honum að sannfæra framkvæmdastjórann um að ráða prófarkalesara, ekki einn heldur tvo.

“Ég treysti mér auðvitað fullkomlega til að gera þetta sjálfur en stundum getur stressið ruglað mann í ríminu,” sagði hann við Ernu á sínum tíma sem samþykkti allt. Og síðan hafði ekki sést ein villa í blaðinu, hvorki málfars né stafsetningar.

En víman yfir hrósinu á Rithringnum var fljót að renna af honum og hann slökkti á tölvunni. Hann setti lappir upp á borð og drakk kaffið í rólegheitunum. Hann vissi auðvitað hvað var að trufla hann. Það lá alveg ljóst fyrir.

Alveg frá því að hann frétti að Jóhann Helgason væri kominn með konu, og það meira segja af erlendu bergi brotnu, hafði skáldsagan hans smám saman að koðnað niður. Hann hafði ekki skrifað neitt í sex mánuði. Hann þoldi ekki tilhugsunina um að Jóhann, fyrirmynd aðalsöguhetjunnar, var ekki lengur sá sem hann var. Jóhann var ekki lengur Herbert, einbúi og trillukarl austur á fjörðum sem barðist við höfuðskepnurnar upp á líf og dauða á hverjum degi. Hann var eitthvað annað. Eitthvað sem Herbert átti ekki að vera. Herbert át soðningu á hverjum degi með hamsatólgi og lýsi en ekki einhverja suðurevrópska “rétti”. Þó Gunnar æti suðurevrópska rétti á hverjum fimmtudegi (Gerða hafði sérstaka dagskrá yfir máltíðir vikunnar t.d. svikin héra á föstudögum og grískt salat á fimmtudögum) þá var það allt annað. Hann mátti borða suðurevrópska rétti enda varheimsborgari þó hann hefði reyndar ekki farið til útlanda síðan hann fór í kórferðina til Skotlands fyrir þremur árum síðan. En Gunnar áleit heimsborgarann vera hugarástand sem hefði ekkert með það að gera hversu oft og lengi menn hefðu verið í útlöndum.

Og Jóhann var enginn andskotans heimsborgari þó hann héldi það sjálfur núna. Jóhann var í eðli sínu Herbert. Maður náttúrunnar. Maður sem myndi frekar borða afbeitu en ólívu. Jóhann var maður sem þrátt fyrir að róa í hvaða veðri sem er, og sýna þar með aðdáunarvert hugrekki, myndi aldrei láta sjá sig með konu. Allra síst fallegri, dökkhærðri og brúneygðri konu sem hét útlensku nafni! Jóhann var sönn austfirsk hetja og umfram allt söguhetjan Herbert í stórbrotnum epískum þríleik sem Gunnar var hálfnaður með og meira segja komin með nafn á!

Gunnar vissi vel að áhyggjur hans stöfuðu ekki einungis af því að líf Jóhanns hefði tekið nýja stefnu. Hann hafði líka áhyggjur af þeim hugmyndum sem höfðu verið að gerjast í kollinum á honum og miðuðu að því að koma Jóhanni aftur á “beinu brautina”. Í aðra röndina fannst honum viðurstyggilegt að hann, Gunnar Jónsson, væri að velta því fyrir sér að eyðileggja hjónaband manns sem vafalítið hafði látið sig dreyma um konu og fjölskyldulíf í mörg ár – eins og söguhetjan Herbert.

Hann fór í svarta frakkann sinn og yfirgaf skrifstofuna. Efinn var að gera hann að kvíðasjúklingi.

 

Ég hótaði því einhvérn tímann að skrifa meira um Ameríkutúrinn á þessa síðu og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera núna. Ég ætla rifja upp kvöldið sem við Sas áttum með mannræningjanum ljúfa Pete Rose og nýaldarspekingnum Nened. Að sjálfsögðu vissum við ekki að Pete væri mannræningi þegar við hittum hann – sem betur fer því þá hefðum við aldrei kynnst þessari hlið amerísku þjóðarsálarinnar ef hún er þ.e.a.s. til.

Við hittum þetta fólk á um tíu leytið á mánudagskvöldi á hótelbar í smábænum Point Arena rétt norðan við San Fransisco. Við höfðum tekið því rólega dagana á undan en ætluðum núna að drífa okkur til Oregon helst á einum degi. Við nenntum því hins vegar ekki og stoppuðum í þessum bæ um leið við sáum veitingastað sem seldi mexíkóskan mat – allt organic vitaskuld. Náunginn á módelinu var greinilega skakkur þegar við tékkuðum okkur inn og sagði “úlala” þegar hann fann loksins lyklana að herberginu okkar. Hann var ekki eini maðurinn sem reykti gras í bænum því Pete sagði mér seinna að Point Arena væri “The capitol city of a country called Marijuana.” Hann sagði líka að íbúar bæjarins væru flestir gamlir hippar og lið sem flúði herskyldu á sjöunda áratuginum. “The hills are full of ’em,” sagði hann seinna um kvöldið og benti eitthvert útí loftið.

Hvað um það. Náunginn á módelinu seldi okkur tvær kippur af bjór og sýndi okkur síðan herbergið sem var eins og öll svefnherbergin í þessari ferð: Stórt rúm, sjónvarp og kaffivél sem mallaði ágætis instantkaffi. Þegar við höfðum klárað bjórinn ákváðum við að kíkja á ströndina og tékka á bar sem við vissum af þar. Það var mánudagskvöld og þegar við

 

Ég var búinn að banna mér að skrifa meira um Austurgluggann á þessa síðu af þeirri ástæðu að það verður alltaf hægt að túlka það sem biturt raus – sérstaklega ef maður ætlar að vera gagnrýninn á það sem er gerast þar. Ég stenst hins vegar ekki mátið eftir að hafa lesið nýjasta tölublað Austurgluggans. Kannski þykir mér bara meira vænt um blaðið en ég hef hingað til látið uppi og mér er ekki sama hvernig farið er með það.

En örstuttan formála fyrst. Þegar ég byrjaði á Austurglugganum vorið 2003 settum við Helgi Seljan (stjörnu)blaðamaður þá reglu að birta aldrei hráar fréttatilkynningar frá stofnunum, einstaklingum og yfirvöldum. Auðvitað var ekki meiningin að henda þeim rakleitt í ruslið en til þess að þær fengju birtingu í blaðinu þá urðu fingraför blaðamanna að sjást skýrt og greinilega. Ég á ekki við að ætlunin hafi verið að falsa þær heldur bæta einhverju við þær eða finna einhvern annan flöt á málinu en nákvæmlega þann sem höfundur fréttatilkynningarinnar vildi að kæmi fram – eða eins og við sögðum stundum: Við ætluðum alltaf að hafa hagsmuni “litla mannsins” að leiðarljósi.

Þetta er auðvitað engin ný blaðamennska. Þetta er eingöngu sú hugmyndafræði sem stýrir eða á að stýra störfum blaðamanna sem vinna á frjálsum fjölmiðlum. Blaðamaðurinn á fyrst og síðast að gæta hagsmuna lesenda sinna en ekki fyrirtækja útí bæ.

Það þarf varla að taka fram að við stóðum okkur ekki meira en svona þokkalega vel í þessu. Alltof oft tókum við fréttatilkynningar (sérstaklega ef þær eru tengdust menningu eða íþróttum) og breyttum í mesta lagi fyrirsögnum og bættum kannski við millifyrirsögnum hér og þar. En engin rýni á innihaldið fór fram. Við höfðum hreinlega ekki tíma né nennu til að velta okkur upp úr því hvort einhverjar myndlistarsýningar á Austurlandi hefðu sérstaka þýðingu fyrir menningarlíf í fjórðungnum (Ég man reyndar að einu sinni skrifaði Helgi Seljan dóm um rokkveislu Brján þar sem tekin var fyrir ensk rokkmússík. Helgi gagnrýndi þar ýmislegt m.a. að efnistökin hefðu verið svo óljós að áhorfendur gátu ekki með nokkrum hætti skilið um hvað sjóvið snerist. Brjánmenn voru ekki hrifnir af skrifum Helga en eftir því sem ég best veit hafa allir Brjánmenn viðurkennt að þessi veisla var hallærisleg og blátt áfram leiðinleg).

En þó maður segi sjálfur frá þá reyndum við alltaf að fylla útsíður og fréttasíður með einhverju gúmmulaði sem við framleiddum sjálfir. Ef við nenntum ekki að finna einhvern nýjan vinkil á fréttatilkynningu þá var hún stytt og sett í eindálk.

Einhvern tímann áður en ég hætti, sennilega bara fyrir þremur vikum eða svo, þá renndi ég yfir Austurgluggann þau tvö ár sem ég var ritstjóri og það kom mér skemmtilega á óvart hvað okkur gekk í raun vel að gera þetta því með fullri virðingu fyrir Austurlandi þá gerist ekkert ofboðslega margt fréttnæmt þarna – sem betur fer eiginlega. Ég ætla ekki að eigna sjálfum mér nema brot af þessu því í þessi tvö ár var ég með stórkostlega blaðamenn sem voru ekki síður uppfinningamenn en blaðamenn. Ég segi uppfinningamenn af því að þeim tókst nánast í hverri viku að gera skemmtilegar fréttir úr litlu sem engu. Nefni sem dæmi frétt sem Helgi skrifaði um skógræktarstjórann á Austurlandi sem var ósáttur við feita kjetið í kaupfélaginu og svo er í sérstöku uppáhaldi hjá mér frétt sem Björgvin Valur skrifaði um flótta fallega og fræga fólksins úr Fjarðabyggð. Tilefnið var flutningur forstjóra Alcoa til Egilsstaða og þá vildi Glúmur Baldvinsson upplýsingafulltrúi frekar búa í þriðja heiminum heldur en í Fjarðabyggð. Svona uppslættir hafa kannski ekkert sérstakt fréttagildi en eru óneitanlega skemmtilegar sögur að austan.

En þá að Austurglugganum í dag. Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því hvort blaðið sé skemmtilegt eða leiðinlegt enda er það smekksatriði. Að vísu fannst mér drepfyndið að því hafi verið slegið upp á forsíðu að hafnar væru tannréttingar á Egilsstöðum. Það að þetta sé forsíðufrétt vikunnar hlýtur að þýða að undanfarna áratugi hafi Héraðsmenn þurft að nærast í gegnum plaströr vegna lélegrar tannheilsu án þess að maður vissi neitt um það. En þetta er útúrsnúningur. Ég hef meiri áhyggjur af öðrum hlutum.

Það er greinilegt að nýju ritstjórnarkrúi er ætlað að hverfa eins langt frá stefnu þeirrar ritstjórnar sem ég tilheyrði og var í forsvari fyrir því hráar fréttatilkynningar fá veglegt pláss í blaðinu og það er engu líkara en að maður sé að lesa kynningarbækling um Austurland, útgefin af Markaðsstofunni og skrifaður af starfsmönnum Athygli.

Í besta falli eru blaðamennirnir bara latir og nenna ekki að hugsa sjálfstætt en í versta falli er þetta meðvituð stefna sem á að þjóna þeim tilgangi að laða að auglýsendur til blaðsins. Það var nefnilega stundum sagt við mig að við værum að fæla í burtu auglýsendur með okkar “neikvæðu” fréttastefnu en ég man að vísu aðeins eftir einu dæmi svona í svipinn þar sem einhver neitaði að auglýsa vegna ritstjórnarstefnu blaðsins. Kannski eru fleiri dæmi en þá man ég ekki eftir þeim. Og svona áður en ég gleymi. Það var Hekla sem neitaði að auglýsa hjá okkur.

En gefum okkur að nýja stefnan sé til þess ætluð að ná í auglýsendur sem er auðvitað svo mikil og þvæla að maður trúir því varla að menn sem taka sig alvarlega skuli hugsa svona. Í fyrsta lagi mun blaðið tapa lesendum því auðvitað nennir enginn að lesa tuttugu fréttatilkynningar í hverri viku. Það getur vel verið að sumum finnist blaðið ferskt núna eftir alla neikvæðnina í mér og vinum mínum undanfarin tvö ár en ég hef enga trú á því að fólk nenni að lesa auglýsingar í formi fréttatilkynninga í hverri viku . Og minni lestur þýðir auðvitað bara eitt: Færri auglýsendur.

Í öðru lagi ber enginn virðingu fyrir svona blaði. Ég er ekki að segja að Austurglugginn hafi verið að springa úr virðulegheitum í mínum meðförum en hvað sem hver segir þá tókum við virkan þátt í umræðunni fyrir austan bæði í fréttaskrifum og pistlaskrifum. Blað sem birtir bara hráar fréttatilkynningar á enga virðingu skilið. Það er bara það sem það er: Auglýsingabæklingur.

Þessi skrif eru farinn að hjóma grunsamlega lík einhvers konar uppgjöri sem var alls ekki ætlunin að færa í skrif en svona gerist þegar maður er á bókasafninu og nennir ekki að læra.

En kannski er líka allt í lagi að gera upp hlutina. Maður lagði sig allan fram í tvö ár um að gera blað sem menn gátu í raun og veru sagt að væri frjálst og óháð og svo koma einhverjir snillingar eins og Siggi Aðalsteins (sem er reyndar fínasti kall þó það sé tæplega hægt að taka hann alvarlega sem blaðamann) og eyðileggja það á einum mánuði.

Menn geta sagt að það hafi verið vinstri slagsíða á blaðinu en það var eingöngu vegna þess að blaðamennirnir mínir og ég erum annað hvort eða bæði anarkistar eða sósíalistar. Gagnrýnendur okkar gleymdu því hins vegar að þeim var frjálst að skrifa í blaðið líka og mikið hefði Austurglugginn orðið skemmtilegur ef menn eins og Hrafnkell A. Jónsson hefðu nennt að skrifa í blaðið og sleppt því að fara í fýlu af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.

Ný ritstjórn ætlar ekki að láta hanka sig á þessu og það er yfirlýst stefna nýja ritstjórans að hvorki hann né blaðamenn skrifi pistla í blaðið. Svona ætlar hann að tryggja sjálfstæði Austurgluggans sem er náttúrulega rugl. Blaðamenn komast einfaldlega ekki hjá því enda þurfa þeir að velja sér efni til að skrifa um í hverri viku. valið sjálft er gildishlaðið því ákveði ný ristjórn að fjalla um eitt efni en ekki um annað er þegar búið að mynda sér skoðun. En kannski ætlar nýi ristjórinn að koma sér undan þessu vandamáli með því að birta hráar fréttatilkynningar. Þá þarf hann ekki einu sinni að ritstýra blaðinu. Því verður bara stýrt af einhverju liði útí bæ.

 

Gerði soldið um daginn sem segir örugglega ofboðslega mikið mig en ég er of þreyttur og svangur til að fara diskútera það núna. Ég fletti sjálfum mér upp á Google. Samkvæmt leitinni er ég vetnissérfræðingur. Já…

Kv.

JK.

 

Stritið mitt

Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus athöfn.

Já, eða það sem mig langaði til að skrifa en gerði ekki:

Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus fíkn.

Lokatilraun:

Að kaupa hljómplötur og bækur er eflaust í langflestum tilvikum saklaus fíkn að því gefnu að það sé löglegt að kaupa hljómplötur og bækur.

Svona. Þetta er það sem ég meinti.

Sæl öll.

Ég heiti Jón Knútur og ég er plötu- og bókafíkill.

Ég vil ekki gera lítið úr fólki sem glímir við alvarlega vímuefnafíkn. Fólk sem er líkamlega háð því að fá inn í æðakerfið einhver efni svo það fúnkeri. Svo það geti tekist á við daglegt líf, mætt í vinnu, keypt í matinn, sett í vél, borgað reikninga, pantað tíma fyrir börnin hjá lækninum og/eða í klippingu og/eða pítsu. Hvað sem er. Sinnt þriðju vaktinni og/eða bara boðið kunnuglegu andliti góðan dag í búðinni.

Ég fúnkera þótt ég sleppi því að kaupa bækur og hljómplötur. Ég get alveg farið inn í plötubúð án þess að kaupa nokkuð. Það geta liðið vikur á milli þess sem ég kaupi hljómplötu. Jájá, það geta liðið vikur. 

En. Þá er ég bara þeim mun duglegri að kaupa bækur og þótt hér á Reyðarfirði, þar sem ég bý, séu hvorki plötu- né bókabúðir hefur netverslun gert þetta auðvelt. Hófleg löngun s.s. ekki sú sem lýsir sér með vægum handskjálfta eða svitadropa á nefbroddi getur endað með „frágangi pöntunar“ svo ég orði þetta kalt og hlutlaust eins og langskólagenginn sálkönnuður.

Oft gengur þetta svona fyrir sig:

Ég hlusta kannski á skemmtilegt hlaðvarp um tónlist. Segjum bara að ég sé að hlusta á viðtal við höfund bókar um tengsl rokktónlistar og stjórnmála í Englandi um miðjan tíunda áratuginn. Fáránlega áhugavert viðfangsefni hafi maður yfirleitt áhuga á stjórnmálum og tónlist. Tek upp símann, opna Amazon og finn bókina strax. Framan á henni er teiknuð, eða eins og stensluð, mynd af Tony Blair og Noel Gallagher (hann heldur á fræga Epiphone-gítarnum, þessum í fánalitunum).

Hugsanastraumnum mætti lýsa einhvern veginn svona:

Sniðugt. Kúl kóver. Ó, hún er á tilboði. Kostar ekki nema tvö þúsund og fimm hundruð krónur hingað kominn með aðflutningsgjöldum og öllu. Já, ókei og hún er tæpar sex hundruð síður. Látum okkur sjá, það eru ekki nema fjórar krónur per blaðsíða…jahá, ekki slæmt.

Ég ímynda mér sjálfan mig með bókina: Sit í þeim „gráa“ í setustofunni. Klukkan sex að morgni og enginn á fótum nema ég. Og kannski hundurinn. Allavega eru börnin sofandi. Enginn að biðja mig um neitt. Ég kveiki á kerti. Ilmkerti. Birkiilmur. Skiptir kannski ekki máli. Og ég er með tvöfaldan espresso í handgerðum bolla frá Esther & Ceramics. Ég er í Star Wars-náttbuxunum mínum og í handgerðri lopapeysu. Hún stingur ekki (merino-ull). Það er svo notalegt. Inniskórnir eru frá Oofos og að ganga á þeim er eins og að ganga berfættur á strönd við Miðjarðarhaf. Sérhannaðir á tilraunastofu, örugglega í Hollandi eða Japan eða á „svæði 51“, fyrir fólk með iljarfellsbólgu, hælspora og tábergssig. Ekkert af þessu hrjáir mig en samt nota ég svarta inniskó frá Oofos. Drep býflugur með kjarnorkusprengjum.

Ég er semsagt að máta mig við bókina.

Þetta tekur nokkrar sekúndur, ef svo lengi, og svo er ég með, sem fyrr segir, stærstu bóka- og plötubúð í heimi í vasanum.

Þetta er ekkert flókið. Það var viðtalið við höfundinn sem kveikti löngunina og restin er síðan bara eitthvað réttlætingarþvaður þar sem ég læt hlutina ganga upp þannig að niðurstaðan verði sú að ég kaupi bókina. Að kaupa þessa tilteknu bók er það eina skynsamlega í stöðunni. Svona bók verður í sjálfu sér ekki metin til fjár, sjáiði til. Hún mun gera mig gáfaðri og fylla líf mitt  gleði og innihaldi. Með henni mun ég eiga ótal „gæðastundir“ og þá tel ég ekki einu sinni með skiptin sem ég mun nýta mér efni hennar sem hráefni í stöðuuppfærslur sem ég skrifa inn í hópa á samfélagsmiðlum þar sem allir meðlimirnir eru svipaðar týpur og ég. Tómleikakenndir miðaldra karlmenn sem vantar smá viðbragð frá umhverfinu. Smá athygli. Smá ást. Hei, hvað eru nokkur læk á milli vina? Geri mig breiðan, tek mér pláss. Held einhverju fram sem gæti virkað stuðandi. Hristi upp í hlutunum. Kem af stað fárviðri. Ég er „enfant terrible“ CD-vaktarinnar á Facebook.

Þetta gerist allt mjög hratt og áður en ég veit af hef ég fengið póstinn um að pöntunin sé móttekin.

Og þá kemur samviskubitið.

Það kemur alltaf. Eins og glymur dyrabjöllunnar þegar maður er einn heima og hefur komið sér þægilega fyrir í „gráa“ með „prentsmiðjuilmandi-nýja“ bók.

Ég hef nefnilega aldrei keypt plötu eða bók án samviskubits. Mögulega er það samt partur af ánægjunni. Veit það ekki. Er ekki viss en það er ekki útilokað. Þessi tengsl vellíðunnar og sársauka eru eitthvað svo spes og dularfull. Stundum leiðir samviskubitið til þess að ég afpanta bækur eða plötur en það gerist sjaldnast. Mér finnst það eiginlega bara pathetic og ég sé fyrir mér starfsmenn Amazon hlæjandi við flæðilínuna í vöruskemmunni, að þessum gaur á Íslandi sem ræður ekki við sig. Að þessum stjórnlausa náunga sem býr örugglega enn heima hjá mömmu og pabba, á stað sem finnst ekkert endilega á landakorti.

Nei, ég tek frekar afleiðingunum. Beiti mig hörku. Mæti lúpulegur á pósthúsið og sæki helvítis pakkann. Ber mig á allan hátt eins og hamingjusamlega giftur fjölskyldumaður í smábæ (sem ég er), þar sem allir þekkja alla, að sækja kynlífsdúkku. Uppblásna – náttúrulega – og þeir hafa ekki haft fyrir því að pakka henni inn í svart plast. Geng með hana heim undir hendinni eins og ég sé á sviði í félagsheimili úti á landi að leika í lélegum þorrablótsannál. Ó, þvílík skömm!

Reyndar hafa póstboxin gert þetta aðeins skárra. Fæ sms en ekki prentaðan miða heim í póstkassa um að það bíði mín pakki frá útlöndum sem Esther réttir mér og segir sposk:

„Úúú…hvað var verið að panta? Bók handa mér?“

Enginn þekkir mig betur en Esther. Hún veit um öll mín leyndarmál og þekkir öll mín vandamál. Hún veit að ég ræð ekki við mig en vegna þess að ég sit ekki undir brúnni niðrí bæ og sprauta mig, sem getur verið pínu sexí – smá rokk og ról – er mín fíkn bara, í besta falli, „krúttleg“ og „asexual“. Hljómplötu- og bókafíkn gerir mig ekki á neinn hátt áhugaverðan eins og ég ímynda mér að morfínfíkn gæti gert. Ég meina, hvað væri William Burroughs án sprautunnar? Bara fínn rithöfundur vissulega en vitum öll að það er ekki nóg!

Þannig að þetta er fyndið og við hlæjum saman að þessu þótt hún hafi nokkrum sinnum spurt mig, þreytulega því það er enn langt til mánaðarmóta og við erum kannski eilítið blönk, hvenær nóg sé nóg.

Hvað þarf ég eiginlega margar plötur með Bob Dylan? Þarf ég að eiga allan eighties-katalógginn þegar við vitum öll að Oh Mercy er nóg? (og kannski hin vanmetna Infidels frá ’84). Eru standardaplöturnar með honum frá síðustu árum skyldueign? Er sjálfgefið að þær verði með tíð og tíma mínar uppáhalds plötur með Dylan þótt mér þyki þær svolítið undarlegar í dag? Myndi ég skrifa eins og alvöru rithöfundur læsi ég My Struggle-seríuna eftir Knausgård? (þrjú þúsund og sex hundruð blaðsíður á sirka tíu þúsund og sex hundruð krónur hingað komnar gera hverja blaðsíðu sirka þriggja krónu virði. Ekki slæmt).

En þetta er nú mergur málsins. Nóg er aldrei nóg. Þú ert aldrei búinn að kaupa síðustu hljómplötuna eða síðustu bókina. Þú ert aldrei búinn að ganga frá pöntuninni sem endar allar pantanir. Lokapöntunin er ekki til. Ekki frekar en marbendlar. Þetta þarftu að skilja ef þú vilt ná bata og jafnvel þótt þú skiljir þetta er ekki sjálfgefið að það hafi neitt að segja. The struggle is real.

Nema náttúrulega í þeim skilningi að tæknilega séð er pöntunin sem ég bið hjúkrunarfræðinginn á líknardeildinni að ganga frá fyrir mig, þegar að því kemur, hin eiginlega lokapöntun. Í vissum og vitaskuld mjög ákveðnum skilningi hlakka ég til. Því þá læt ég loksins verða að því að panta Bukowski eins og hann leggur sig. Ljóðabækurnar líka.

Hvort ég verði enn lifandi þegar pakkinn kemur austur á firði er aukaatriði. Og það þarf varla að taka fram að það er líka mergur málsins.

 

Ef væri ég söngvari

Ég er nýkominn úr göngutúr með hvolpinn. Ætlaði með hann út í „Haga“ sem mér skilst að sé heitið á svæðinu þar sem vinnubúðirnar voru reistar þegar verksmiðjan var byggð upp úr aldamótum. Ég er ekki heimamaður og kann ekki svona lókal örnefni nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég veit að fjallið í stofuglugganum heitir Hádegisfjall. Flest annað er á reiki.

Þegar ég segi Esther að ég sé að fara út með hundinn veit hún hvert ég fer. Því ég fer næstum því alltaf sama hringinn. Ég er vanafastur, bind allt sem ég get í rútínur, borða alltaf sama morgunmatinn (hafragraut með rúsínum), skrifa á sama tíma (frá sex til sjö). Ég geri þetta til að spara tíma. Ég veit hvað stendur til, þarf ekki að velta vöngum. Þetta fækkar valkostum og vinnur gegn streitu.

Ég legg bílnum nálægt Norðfjarðarvegi, í „túnfæti“ vinnubúðanna og geng úteftir veginum, sem er s.s. gamli Norðfjarðarvegurinn, þar til ég kem að öðrum vegi, sem liggur upp í fjallið, og ég reikna með að hann hafi verið lagður þegar rafmagnsmöstrin voru reist á sínum tíma. Þessir vegir, sem ég kalla „línuvegi“, finnst mér eins og liggi út um allt og ég hef ekki enn gengið þá alla til enda þótt ég hafi búið hér í að verða fimmtán ár.

Hnota er annar hundurinn í minni eigu sem fær að kynnast þessu umhverfi. Stígakerfinu í fjallinu. Ég er oftast með hana lausa því það er ágætis útsýni yfir veginn, svona oftast allavega, og sjaldan sem einhver kemur manni á óvart. Það gerist eiginlega bara þegar ég tek með mér hljóðeinangrandi heddfóna og er týndur í tónlist eða hlaðvarpsþáttum sem fjalla oft um tónlist. (Ég hlusta orðið meira á umfjöllun um tónlist en á tónlistina sjálfa. Sem er svolítið galið er það ekki?)

En mér finnst notalegt að hlusta á fólk tala. Finnst eins og ég sé ekki einn. Eins og að einhverjir málgefnir kunningjar séu með í för.

Þetta hlýtur að vera aldurinn.

Í gærmorgun var ég að hlusta á tónlist. Ég hafði fundið lagalista sem unnin var upp úr skáldsögunni The Shards eftir Bret Easton Ellis. Ég kláraði bókina í fyrrakvöld, sem var sex hundruð síður og lengsta skáldsaga sem ég hef lesið í nokkur ár. Ég er bara eins og þið: Búinn að skaða í mér heilabúið með samfélagsmiðlanotkun og á erfitt með að halda athygli ef málsgrein er lengri en hundrað orð.

Mér finnst þetta skelfileg þróun. Á mér. Á okkur öllum. Og ég held að þetta sé alvarlegt. Ég held í alvörunni að þetta sé alvarlegt. Ég held að þetta útskýri uppgang öfgaskoðana til hægri og vinstri og ég held að þetta dragi athyglina frá málum sem eru í raun og veru að ógna tilvist okkar.

Samfélagsmiðlanotkun er að drepa okkur. We are amusing ourselves to death.

Svona get ég haldið áfram að þenja mig í samtali við engan, einn með hvolpinn uppi í fjalli. Ég þarf stundum klukkustund til að ganga úr mér pirringinn út í „stöðuna“ en stundum er þetta persónulegra: Einhver sagði eitthvað við mig og í þessum dagdraumum segi ég það sem átti að segja. Les yfir honum. Læt hann heyra það.

Velti fyrir mér núna hvort þetta sjáist á mér ef einhver fylgdist með þessum göngumanni úr fjarska með kíki. Hreyfast varirnar? Hnyklar hann brýrnar? Er hann með fingurinn á lofti þegar mest liggur við?

Ég þramma svona hugsanir úr mér og svo umbreytast þær í eitthvað annað. Verða, í vissum skilningi, léttvægari. Ómeðvitaðar og stundum skrýtnar. Í þessum fasa fæðast stundum ljóð, Facebook-statusar, uppskriftir að súpum og lausnir á öðrum hversdagslegum vandamálum.

Ég var t.d. að hlusta á Vienna með Ultravox í gærmorgun, sem er fyrsta lagið á þessum lagalista úr The Shards. Bókin gerist árið 1981 og ekkert er meira „1981“ en Vienna með Ultravox. Ég hafði tekið heddfóninn af öðru eyranu svo ég gæti heyrt mig syngja með og ég var að velta fyrir mér hvort raddir okkar Midge Ure, söngvara og helsta lagahöfundar Ultravox, væru á svipuðu raddsviði þ.e. gæti ég sungið þetta lag, t.d. í karaoke á bar einhvers staðar á Spáni, með sannfærandi hætti, án þess að hljóma mjög falskt? Ég er nefnilega með mjög takmarkaða söngrödd og það truflar mig aðeins. Kann ekki alveg að útskýra það en ég skal reyna:

Ég spila í hljómsveit og stundum heyri ég hvernig hægt væri að radda með söngvaranum en ég get ekki framkvæmt það. Og það er soldið glatað! 

Og svo langaði mig að syngja fyrir Iðunni og Elías þegar þau voru lítil. Ég vildi að þau fengju „tónlistarlegt“ uppeldi og keypti bók sem hét Sönglögin okkar í bókabúð á Akureyri rétt áður en Iðunn fæddist. Ég keypti líka tvær uppeldisbækur. Handbækur fyrir verðandi foreldra. Ég ætlaði að lesa mig í gegnum uppeldið.

Aftan á þessari tilteknu bók stóð: Skemmtileg lög sem allir Íslendingar þekkja og ekki síst börnin. Bókin geymir undirspil, texta og fallegar myndskreytingar. Kynslóðirnar geta skemmt sér saman með þessari bók við að syngja lög eins og Ég er kominn heim, Ryksugulagið, Danska lagið, Sagan af Gutta og miklu fleiri. Veljið lag, ýtið á takkann, hlustið, lesið og syngið með!

Það var aldrei sungið fyrir mig sem barn og ég veit meira um breskt post-punk í kringum ’80 en ég veit um íslensk dægurlög og vísur. Sum lögin voru mér því fullkomlega framandi og ég þurfti að finna þau á Spotify, spila þau með bókina við höndina og lesa textann með. Ég þurfti að kynnast þessum menningararfi minnar eigin þjóðar og „gera þau að mínum,“ eins og dómararnir í Idol segja.

Til að gera langa sögu stutta: Þetta tímabil entist stutt. Ég söng fyrir börnin í fáein skipti og svo hætti ég því. Þetta bara virkaði ekki. Þetta var eins og að spila eitthvað lag á dansleik sem við í bandinu vorum búnir að ákveða að virkaði en virkaði svo alls ekki. Það dansaði enginn. Það fóru allir út að reykja.

Ég held að vandinn hafi verið sá að tóntegundin hentaði mér ekki. Hver veit, kannski var hún ætluð mömmum en ekki pöbbum? Ég bara veit það ekki. Krökkunum fannst allavega ekki notalegt að hlusta á mig syngja. Mér fannst það ekki heldur. Mér fannst eiginlega mjög óþægilegt að hlusta á sjálfan mig því ég réð ekki við röddina mína, hafði ekki stjórn á henni og hún brotnaði við minnstu hreyfingu laglínunnar, hvort sem hún fór upp eða niður. Ég hitti bara ekki á réttar nótur!

Þetta var samt ekki beinlínis vandræðalegt. Börnin voru bara börn og báðu mig um að hætta þessu. Ég hafði engar þannig hugmyndir um sjálfan mig að ég gæti sungið, að ég væri söngvari, svo ég hætti bara. Þetta snerist eingöngu um góðan vilja og ég móðgaðist ekki. Ég vildi bara syngja fyrir börnin; ef væri ég söngvari syngi ég ljóð // um sólina vorið og land mitt og þjóð…

En ég gat það ekki og þess vegna hætti ég. Krakkarnir vildu miklu frekar heyra mig lesa og ég held að röddin mín henti betur til upplesturs. Já, ég held, ykkur að segja, að ég sé með ógeðslega góða útvarpsrödd. Þótt ég segi sjálfur frá. Gæti örugglega gert góða hluti sem starfsmaður hjá Storytel.

Ég hef fengið sömu martröðina oftar en einu sinni: Ég stend á sviði með míkrafón í hendi og fólkið í salnum, sem ég sé ekki því ég stend í björtu og blindandi sviðsljósi, bíður eftir því að ég byrji að syngja.

Og svo byrja ég:

We all came out to Montreux
On the Lake Geneva shoreline
To make records with a mobile
We didn’t have much time
But Frank Zappa and the Mothers…o.s.frv.

Þetta er, ef þið eruð ekki búinn að átta ykkur á því, Smoke on the Water með Deep Purple. Útjaskaðasta rokklag sögunnar og einn mesti rokkbarki síðustu aldar syngur það í upprunalegri útgáfu frá árinu 1972. Hann er „hetjubarki“, svokallaður, eins og Robert Plant í Led Zeppelin. Gersamlega með ‘etta, getur sungið allt og var náttúrulega „sexy as fuck“ í gamla daga.

En eins og ég er búinn að lýsa þá get ég ekki sungið Gamla Nóa án þess að fara út af sporinu. Og á meðan ég man: Ég syng ekki bara falskt heldur man ég sjaldan söngtexta. Þannig að þessar matraðir reyna mjög á mig, ég svitna og mér líður eins og ég sé búinn að pissa á mig þegar ég vakna. Sem er auðvitað ekki góð tilfinning fyrir fullorðinn mann. Ég hef vaknað hljóðandi upp úr svona draumum og vakið Esther en man síðan ekki hvort ég er að syngja þegar ég vakna eða hvort þetta eru einhvers konar hræðsluviðbrögð. Að ég sé lagður á flótta. (Og ætli ballgestir séu þá að elta mig?)

Mig dreymir ekki oft og þá sjaldnar að ég fái martraðir. Í þau fáu skipti sem það gerist tengist það iðulega álagi. Það er mikið að gera í vinnunni, verkefnin ekki á mínu hæfileikasviði, yfirmaðurinn ósanngjarn, vinnufélagarnir gagnslausir. Það er enginn er að standa sig. Nema ég náttúrulega. Ég þarf að gera allt sjálfur.

Og þá held ég að undirmeðvitundin komi mér fyrir á sviði í félagsheimili fyrir vestan með míkrafón. Gítarleikarinn byrjar á riffinu sem við þekkjum öll, fólkið byrjar (náttúrulega) að klappa á einum og þremur og við bíðum öll eftir söngvaranum: We all came out to Montreux…

Svona nær hún mér – undirmeðvitundin – niður á jörðina, gerir mig auðmjúkan, og ég mæti bljúgur í vinnuna þann daginn. Þakklátur vinnufélögunum. Og yfirmaðurinn? Hann er sá besti sem ég hef haft nokkurn tímann.

Kannski er ég, eins og sumir trommarar, með dulda ósk um að vera frekar söngvari. Ég las þetta í viðtali við Bono í U2 einhvern tímann. Hann var að tala um trommarann, Larry Mullen Jnr. Sagði hann vera með „söngvarakomplex“. Einhver sem vildi hafa stærra hlutverk en honum var ætlað.

Kannski er ég bara eins og Larry?

Kannski er ég með dulda þrá um meira sviðsljós, meiri athygli. Ég vil meira pláss. Ég vil vera númer. Ég vil vera alfa. Ég vil greina ljóðin mín með Agli Helgasyni í Kiljunni.

(Mér finnst óþægilegt að skrifa þetta. Þetta rímar ekki við sjálfsmyndina um að ég sé hógvær og feiminn. Vel uppalinn og hlýðinn.

Ég hitna í andlitinu og finn að það rennur svitadropi niður bakið á mér. Það er harður púls við gagnaugun og mér finnst eins og ég sé að fá hjartaáfall. Ég trúi þessu ekki. Burt með þessa hugsun!

Burt!)

Á þessu augnabliki sé ég að Hnota er að róta í lúpínubeði. Ég er með Vienna á háum styrk, örugglega búinn að spila það fimm sinnum í röð og hef nokkurn veginn náð viðlaginu (að ég held). Lagið er að klárast sem það gerir með dramatískum, eiginlega hádramatískum, hætti. Alvöru Wagner-ískt crescendo eins og menn kunnu að gera í nýrómatíkinni árið 1981 þegar tónlist var ennþá dínamísk.

Svo sé ég það sem ég óttast: Hnota er með þrastarunga í kjaftinum.

Heyri mig öskra. (This means nothing to me! This means nothing to me!) Heyri mig skipa henni að sleppa honum sem hún gerir ekki. Hún er labrador, veiðihundur, og hún skilur ekki hvers vegna hún má ekki gera það sem henni var ætlað að gera. Að fanga fugla. Ég öskra aftur (This means nothing to me!) og reyni að ná unganum úr kjaftinum á henni en hún sleppir ekki. Hún skilur ekkert. Er hikandi og hissa. Veit ekki hvers vegna eigandi hennar er með þessi læti út af einhverjum smáfugli. Hörfar en loksins opnar hún kjaftinn nægilega mikið svo fuglinn dettur á jörðina, helsærður, annar fóturinn eftir í munnviki hennar. Situr þar eins og illa vafin sígaretta. 

Unginn reisir sig við, situr „á rassinum“ í mölinni, báðir vængir útbreiddir og óeðlilega beinir. Sennilega báðir brotnir. Hann teygir höfuðið í átt að himni í síðasta skipti og opnar gogginn, titrandi. Heldur honum opnum. Eins og söngvari. Eins og hann sé að syngja lokatóninn í Vienna með Ultravox. (This means nothing to me!) Þessu ótrúlega popplagi sem endar þarna uppi í fjalli á sama tíma og líf þessa þrastarunga. Um mitt sumar. Austur á Reyðarfirði.