Kanarí D

Ég var ekki fyrr sestur út á veröndina til að hugleiða hér í morgun en einn starfsmaðurinn var mættur með öskubakka handa mér og í beinu framhaldi byrjaði hann að ryksuga fyrir aftan mig. Eðlishvötin sagði mér að gera eitthvað. Svona eins og þegar nágrannar manns byrja að slá grasið, þrífa bílinn o.þ.h. þannig að hálft í hvoru langaði mig til að hjálpa honum. Í það minnsta bjóðast til að fara í uppvaskið á eftir. Samviskustreitan yfirtók líkamann og ég þurfti að beita mig hörku til loka augunun, draga andann djúpt og hverfa á vit hinnar tæru vitundar. Og viti menn: hljóðin í ryksugunni hurfu smám saman.

Ég fór bara með möntruna mína eins og forréttindaplebbinn sem ég er og vaknaði ekki til meðvitundar fyrr en ég heyrði einhvern einkennilegan slátt fyrir aftan og ofan mig. Hélt fyrst að dúfurnar væru að halda veislu í þakrennunum, eins og í einhverju ljóði sem ég las, en þetta var eitthvað annað. Eins og taktur, framkallaður með burstum og mér datt strax í hug eitthvað lag með Björk og fór að telja í huganum eins og trommara er háttur. En það var auðvitað engin glóra í þessu svo ég freistaðist til að gá: 

Starfsmaðurinn var að sópa flóttastigann. 

Ég þurfti andartak til að meðtaka þetta. Ljá þessu einhverskonar merkingu.

Hvers konar manneskja tæki eftir því, á öskrandi flóttanum, með eldtungurnar sleikjandi hnakkann, hvort stiginn væri ekki örugglega fullkomlega skínandi hreinn? 

Mér datt í hug ein eða tvær.   

 

Kanarí C

Ég sit hér í lobbíinu á meðan ég skrifa. Ég er eini gesturinn. Eini morgunhaninn eins og venjulega. Starfsfólkið er auðvitað glaðvaknað og mér finnst stundum eins og það byrji að ryksuga um leið og það sér mig. Eins og mamma gerði í gamla daga.

Kannski eru eyjaskeggjar ekki vanir því að gestirnir séu morgunfólk og skilur ekki þennan mann – jafnvel tortryggir – sem sest hér í lobbíið og lokar augunum í tuttugu mínútur áður en hann tekur upp tölvuna sína og byrjar að skrifa. Ætli hann sé einhverskonar úttektaraðili?

Í gærmorgun sat ég hér og hugleiddi þegar einn byrjaði að ryksuga í kringum mig. Sennilega haldið að ég væri bara sofandi. Já, eða kannski bara brennivínsdauður.

Hefði hann bara vitað. Stundum held ég að ég ætti bara að taka upp símann minn, strjúka honum með vísifingri og haga mér eins og maður. 

Í gær hitti ég fólk frá Belgíu á leikvellinum. Maður um sjötugt, kona um fertugt, barn á aldri við dóttur mína. Ég hélt á plastboltanum hans Elíasar og var í bláum íþróttabol og stuttbuxum. Sá sjötugi dró samstundis þá ályktun að ég væri „allur í boltanum“ en sonur minn, fimm ára, var hvergi nærri til að bjarga mér úr klípunni.

Sá gamli var ekki sleipur í enskunni og sökum meðfædds fæðingargalla tekur færni mín í ensku alltaf mið af enskufærni þess sem ég tala við. Þannig gæti ég sennilega bjargað mér í spjalli um póststrúkúralisma við enskan háskólaprófessor en við Belginn þurftum að nota táknmál og þegar hann áttaði sig á því að ég var Íslendingur veðraðist hann upp og fór að tala um „Arnór“ og „Eið“ og ég brosti og tók undir eins og um gamla vini mína væri að ræða.

Hefði hann bara vitað! Fótbolti fyrir syni mínum er bræðingur af handbolta og einhverjum stjörnustríðsleik sem hann spinnur jafnóðum og það eina sem ég hefði mögulega getað rætt við hann af einhverri þekkingu væri #metoo hreinsunin á íslenska karlalandsliðinu og helvítis fylleríið á honum Eið. Semsagt, eitthvað eins og „did you hear about, Gylfi?“

Dagarnir eru byrjaðir renna saman hér á hótelinu. Tölvan segir mér að það sé nítjándi febrúar en ekki hvaða vikudagur. Með örlítilli einbeitingu get ég áttað mig: Ég er á hóteli á Kanaríeyjum og það er sunnudagur. Ég ímynda mér að svona gæti þetta orðið á elliheimilinu eftir þrjátíu ár eða svo. Jafnvel fyrr. Fer eftir því hversu lengi ég nenni að hreyfa mig og passa mataræðið. Þá mun þessi elliversjón af mér einmitt hugsa: Hvar er ég? Hvert er árið? Who cares? Færið mér graut! Þykkan!

Ég sofnaði við óminn af laugardagsskemmtuninni en á kvöldin setja starfsmennirnir upp karíókípartí fyrir gráa herinn. Í fyrrakvöld komum við heim úr mínigolfi og rákum inn nefið á kvöldvökuna. Uppi á sviði var ungur maður í rauðum bol merktum hótelinu að syngja Proud Mary í útgáfu Tinu Turner. Hann söng textann af skjá og á honum var líka mynd af Tinu í 80s-múnderingunni sinni með þetta stóra og eftirminnilega 80s-hár, sveiflandi míkrafón með snúru. Tek fram þetta með „snúruna“ því dóttir mín, níu ára, spurði okkur hvers vegna það væri mynd af „kúreka“ uppi á sviði og ég, eins og fífl, fór að útskýra fyrirbærið Tinu Turner eins og dóttir mín væri geimvera frá annarri vetrarbraut, nýlent: „Tina Turner var sú alflottasta í mínu ungdæmi,“ ýkti ég og tók svo danssveifluna hennar í Proud Mary af bestu getu. Allt í einu varð ég áttræður og fyrirbærið Tina Turner jafnvel óskiljanlegra í huga níu ára barns.  

En ég þekki þessa útgáfu af laginu vel. Spilaði hana þúsund sinnum á dansleikjunum í gamla daga og þetta var bara nokkuð frambærilegur söngur hjá drengnum. Allskyns fléttur og flækjur í lok hverrar sönglínu eins og hátturinn er hjá fólki sem elst upp við þætti eins og Idol-ið og Voice, já, og svo virtist hann bara hafa gaman af þessu. Kannski besta giggið á hótelinu? Skemmtilegra en að ryksuga í kringum úttektaraðila eins og mig á morgnana?  

Þegar stuðið loksins byrjaði og lagið fór á fullt klöppuðu áhorfendur með á einum og þremur eins og vera ber og héldu út fram yfir fyrsta viðlag. Þessir kokteilar drekka sig jú ekki sjálfir og athyglin fór eitthvert allt annað.

Jamm. Svona er þetta. Lífið er lag og við klöppum með á einum og þremur fram yfir fyrsta viðlag. Svo vöxum við upp úr þessu. Því það þarf að borga þessar skuldir og skipta um þessar kransæðar.   

Segisona.  

 

Kanarí B

Áður en ég segi ykkur frá nakta manninum sem ég sá teygja úr sér á svölunum skáhallt á móti mér langar mig til að koma öðru að fyrst. Nefnilega að fyrsta fólkið sem ég hitti í lobbíi hótelsins voru sveitungar mínir frá Norðfirði. Þau eru tengdaforeldrar vinar míns og eins gamalgrónir Nobbarar og fólk getur orðið, kunningjar foreldra minna. Og auðvitað hitti ég þau strax á fyrsta hálftímanum okkar á eyjunni syðra!

Við segjum þetta stundum, við Íslendingar, að við séum alls staðar og stundum held ég að það sé rétt. Skrýtnast fannst mér að rekast á íslenska stelpu á einhverri pínulítilli eyju í Halong-flóa í Víetnam fyrir þrettán árum síðan. Við Esther vorum á ferðalagi, höfðum verið á Indlandi nokkrum dögum fyrr og leið á allan hátt eins og einu Íslendingunum í heiminum en svo var okkur bara heilsað á ströndinni eins og við værum stödd á Stöðvarfirði! Sem er kannski ekki vel orðað því maður heilsar sjaldnast ókunnugum á heimaslóðum svona bara afþvíbara. Við viðurkennum tilvist fólks með augngotu. Kinkum kannski kolli, ekkert sérstaklega kumpánlega, en ekki dónalega heldur. Jafnvel dulbúum við hreyfinguna þannig að hún geti þýtt nánast hvað sem er. Við getum jú ekki verið viss um að viðkomandi taki undir kveðjuna og þá getum við orðið vandræðaleg og við viljum fyrir alla muni komast hjá því. Þá getum við bjargað andlitinu með því að þykjast hafa verið að gera eitthvað allt annað, liðka hálsinn, jafnvel gerum við okkur upp væg tourette-einkenni eða bara eitthvað. Við notum ímyndunaraflið.

En hann stóð þarna, bísperrtur, með grjótharða og vel sólbakaða ístru, húðin svo brún, sjötug og bökuð að hún minnti á gamla snjáða leðurjakkann sem ég átti á blaðamannaárunum mínum. Hann var með hvítt sítt hár, þykkt yfirvaraskegg og skeggstubb undir neðri vörinni, svona eins og Frank heitinn Zappa. Heilabúið gat móttekið þessar sjónrænu upplýsingar hratt og örugglega því ég kannast við gamla hippa þegar ég sé þá. Hann var – ég endurtek – nakinn svo ég gat séð restina en góndi ekki á hana þannig að ég gæti lýst öðrum líkamshlutum jafn nákvæmlega, þið vitið, líkt þeim við útlitseinkenni annarra dauðra rokkstjarna og þess háttar. 

Og svo leit ég auðvitað hratt undan. Blygðunarkenndin var ekki særð eða neitt slíkt. Mér er alveg sama hvernig fólk vill vera. Það má vera berrassað ef það vill – ég er umburðarlyndið holdi klætt. Þetta voru meira svona ósjálfráð viðbrögð, svona eins og mér fyndist ég vera trufla hann. Svo ég leit undan, fór aftur inn og sagði krökkunum og eiginkonunni að ég hefði séð allsberan kall. Dóttir mín, níu ára, vildi gjarnan fá að sjá líka, svona eins og ég hefði sagt henni að ég hefði séð stórfenglega kanaríska eðlu þarna úti en hann var horfinn og þetta hljómaði í hennar eyrum eins og hvert annað pabbagabb.

En hann var þarna. Nódjók. Kannski sá hann mig og varð vandræðalegur fyrir mína hönd en ég held ekki. Allt í fari hans benti til mikils sjálfsöryggis. Hvernig hann stóð þarna gleiður og teygði út handleggina, einn í heiminum, vitandi fullvel að fólk eins og ég kemur og fer. Ég verð horfinn að eilífu eftir nokkra daga. Já, eða bara samstundis. Ég var aldrei til í hans augum. Ég var ekkert.

Þetta var borgarbúi. Fullyrði það. Þeir haga sér stundum eins og strandaglópar á eyðieyju jafn öfugsnúið og það hljómar. Í mannmergðinni er borgarfólkið ósýnilegt og það getur, sé það sæmilega illa uppalið, hagað sér að vild. Ekki í smábænum. Vér smábæjarmenn erum hinir einu sönnu diplómatar. Við erum upptekin af náunganum sýknt og heilagt og getum aldrei um frjálst höfuð strokið.

Maður velur sér ekki vini í smásamfélögum nema að litlu leyti. Þú fæðist í litlum firði fyrir austan og ef þú ákveður að setjast að verður þú að finna þér vini. Sameiginleg áhugamál, stjórnmálaskoðanir, kyngervi og svo framvegis verða aukaatriði. Það er bara ofgnótt, sem ég geri ekki lengur ráð fyrir, að hitta vinstrikrata niður í bæ sem fílar Sykurmolana. Smábærinn er ekki morgunverðarhlaðborð á hóteli við miðbaug þar sem þú getur á hverjum morgni sett saman hinn fullkomna dögurð eins og þú sért að púsla saman listsýningu í Metrópólítan NYC! Smábærinn er múslí og AB-mjólk! Sættu þig við það, maður!

Í smábænum finnur þú leiðir til að láta þér lynda við náungann því þú munt hitta hann fyrr eða síðar í eigin persónu. Þú getur ekkert blammerað manninn á Facebook bara sísona og reiknað með því að þú þurfir ekki að horfast í augu við hann framar. Þú munt gera það klukkustund síðar við mjólkurkælinn í Krónunni! Þurfir þú að fá útrás fyrir gremjuna þarftu að læra að tala undir rós og dulbúa meiningarnar. Felulita þær og vega úr launsátri.    

Hvað um það. Ég bara get ekki farið allsber út á svalir, hér suður við miðbaug, jafnvel þótt ég gjarnan vilji. Það er útilokað því ég er ekkert búinn að gleyma tengdaforeldrum vinar míns frá því í gærmorgun. Ég vil ekki gera þeim þetta, hitta þau svo bara í morgunmatnum, slafrandi í mig hráskinku og spældu eggi, eins og ekkert hafi í skorist. 

Eins og þeir segja:

Þótt þú farir úr firðinum fer fjörðurinn ekki úr þér.

 

Minnispunktar frá Kanarí – A

Furðulegt hvernig hugurinn virkar, hugsa ég.

Rútan er full af gráu hári á leið sinni á „all you can eat/drink“ einhvers staðar á Kanarí og svo okkur Esther og börnunum, tengdamömmu og Margréti, vinkonu okkar.

Við sitjum aftast. Ég horfi yfir hópinn. Fólk af sömu kynslóð og gerði stjórnlausan hárvöxt vinsælan fyrir 1970. Grátt hár og skallar. Ágætis hreyfigeta en hjarta- og æðakerfið mögulega ekki í toppstandi ef marka má gönguna frá flugvél að farangursfæribandinu. Tíu mínútna spölur og tvisvar sinnum sé ég eiginkonu stumra yfir eiginmanni. „Svonasvona, Eyjólfur minn,“ gætu þær hafa sagt til að hressa þá við, klappandi þeim létt á bakið. Margrét er menntaður læknir og ég sé á augnaráði hennar að hún á von á hverju sem er.

Fararstjórinn réttir mér umslag. Ég opna það og það fyrsta sem ég dreg upp er blað með símanúmeri heilsugæslunnar. Right.

„Þeir voru að hleypa úlföldunum út í Sahara,“ segir fararstjórinn. Þannig útskýrir hún mistrið á eyjunni og í rútu fullri af eldri borgunum gerir enginn athugasemd. Enginn hlær. Kannski er hún að segja satt, hugsa ég, og fólk er bara búið að heyra þennan brandara of oft. Því þetta er fólk í sinni tíundu ferð til Kanarí.  Þegar fólk hættir að vinna kemur það aftur og aftur og aftur til eyjunnar og svona ferðalag er bara eins og hver önnur hjartaþræðing. Fararstjórinn nefnir nokkra með nafni í kallkerfið í rútunni: „Jón og Gunna? Þið eruð á Turboclub eins og venjulega er það ekki?“

Esther horfir á mig og ég les upphrópunarmerkið á vörum hennar. „Turboclub!“. Við hugsum það sama: Enn hvað þetta er skrýtið val hjá eldri borgunum og ég gúggla hótelið, eða klúbbinn, strax. Túrbóclub fær toppeinkunn á TripAdvisor og þess er sérstaklega getið hversu þrifið starfsfólkið er. Ég er engu nær um þessa nafngift og hún virðist jafn tilviljanakennd og útíhött og þetta með úlfaldana.
´
Það er svo merkilegt að eftir því sem maður eldist fer maður að kunna meta svona hluti. Ég þekki það sjálfur. Maður kann orðið betur að meta vel þrifið anddyri á hóteli en „all you can drink“ barinn aðeins innar. Maður strýkur vaskinn á hótelherberginu og tekur út fingurgóminn, virðir hann fyrir sér, rannsakar hann með pírðum augum. Hvers konar skán er þetta sem ég greini? Storkið hreinsiefni eða hvur fjandinn? Ég vil ekki vita það og hringi í móttökuna. Ég vil aukaþrif á herbergið mitt á meðan ég fer í kvöldmat. Takk.

Svolitlar ýkjur en ekki miklar. Ég á t.d. einn félaga, aðeins fjórum árum eldri en ég, sem fullyrðir að fólk sem býr ekki um rúmið sitt sé í raun og veru „lifandi dautt“. Hann er ekkert að grínast. Hann segir það „lifandi dautt“ og ég veit að honum er alvara því þegar ég spyr hvort hann meini þetta svarar hann: „Já, ég meina þetta.“

Það hlýtur að vera erfitt að vera aldraður maður og eiga þennan félaga minn fyrir son. Hvernig haldiði að það sé að fá hann í heimsókn? Þú ert kannski í gúddí fíling, búinn að sofa út til hálf ellefu, situr við eldhúsborðið með kaffibollann þinn og lest blaðið. Þetta eru laun erfiðisins en allt í einu er hann mættur út á mitt gólf því auðvitað krefst hann þess að vera með lykla að húsinu þínu, strunsar beint inn í herbergi og sjá: Gamli kall! Þú hefur gleymt að búa um rúmið þitt!

Þú lítur sakbitinn undan augnaráði hans. Lifandi dauður. Þú ert ekki lengur eldri maður að livva og njódda með engum kvöðum eða skuldbindingum. Þú ert gamall og roskinn kall. Sötrandi þitt lapþunna kaffisull með sleftauminn útum hægra munnvikið. Varla sjálfbjarga. Lifandi dauður.

Ég horfi út um gluggann. Við keyrum framhjá vindmyllugarði. Sumar eru nálægt okkur og þá loksins áttar maður sig á því hvað þetta drasl er risavaxið. Ekki frekar en maður gerði sér grein fyrir því hvað álverið á Reyðarfirði var stórt fyrr en maður ók í fyrsta sinn fram hjá því. Það tók dágóða stund minnir mig.

Ég horfi á þær. Vindmyllurnar. Sumar eru á hægri hreyfingu en aðrar eru stopp og þær standa þarna eins og uppgefnar og minna mig á einhvern fjandann. Ég þarf hugsa til að átta mig. Einn spaðinn vísar upp á meðan hinir standa út á hlið og síga örlítið. Lafa líkt og handleggir. Á hvað minnir þetta mig eiginlega?

Jú, svei mér þá. Þær minna mig á frægustu ljósmyndina frá Abu Ghraib-fangelsinu. Þessari af fanganum með hettuna.

Vindmyllur – orkuframleiðsla – íslenskt álver – amerísk heimsvaldastefna

Furðulegt hvernig hugurinn virkar.

 

Kanarí

Við erum farin til Kanarí.

Stutt stopp í Reykjavík og við fórum með börnin og tengdamömmu rakleitt í IKEA. Ekki til að versla heldur til að fara út að borða. Á matseðlinum var hægt að fá kjúklingahamborgara, ýsu í orly, veganbollur, kjötbollur og plokkfisk. Já, ég man þetta. Við fengum okkur ýsuna, plokkfiskinn, brauð með hangikjöti fyrir tengdó og kjötbollur fyrir börnin, tvær rjómabollur og kladdköku, gos og kaffi til skiptana. Fyrir þetta borgaði ég rétt rúmar 5400 kr. og mér til undrunar varð ég gripinn einhvers konar ofsakæti. Ég bara réð ekki við mig, hló að öllu og lék á alls oddi. Sagði m.a. söguna af manninum sem ég kallaði afa sem var svo þrjóskur að þegar hann fékk kíghósta sem barn neitaði hann að hósta og náði fullri heilsu á undraskömmum tíma. 

Svona er ég svag fyrir góðum díl. Eða kannski er ég bara nískur. Það gæti allt eins verið. Nískutaugina má alveg finna í fjölskyldunni minni. Ætla ekkert að neita því. 

Það verður auðvelt að gera mér til geðs. Gemmér bara góðan díl á kjötbollum og ég verð ljúfur sem lamb.

Jess! Við erum farin til Kanarí.  

 

Lærdómar

What lessons did you learn this past year – how have you grown and improved?

Sko…

Það er ekki mitt að segja, kæri stokkur. Ekki þegar öllu er á botninn hvolft. Því skynjun manns á eigin gjörðum og hugsunum er brengluð. Mér finnst ég vera hvers manns hugljúfi alveg þangað til eiginkonan spyr mig:

Hvers vegna ertu þá svona æstur? 

Nú og þá spyr ég á móti:

Hví gaslýsir þú mig, kona?

o.s.frv.

Ég gaf út ljóðabók í vor. Ég ætlaði ekki að gefa hana út. Ætlaði að prenta hana í nokkrum eintökum og gefa vinum og ættingjum. Egill Arnaldur, vinur minn og gúrú, las hana yfir og sagði mér að láta prenta hundrað eintök. Hann orðaði það sem svo að það væri eitthvað svo kynferðislega bælt við skúffuskáldskaparlistina. Ertu eitthvað bældur, Jón minn? Svarið var já. Ég er yngsti sonurinn í geðveikri fjölskyldu og ég er alltaf með grín og glens á vörunum. Halda fólki góðu. PR er mitt fag!

Að fara deila einhverjum sorgarvaðli með fólki sem ég þekki ekki…það þurfti að sannfæra mig um að það væri góð hugmynd.

Þessi bók varð til á löngum tíma. Það söfnuðust saman textar á tæpum tíu árum og einhvern laugardagsmorguninn í heimsfaraldrinum sá ég að þarna var mögulega komið efni í bók. Ég hafði í nokkur ár sest niður í þeim tilgangi að skrifa bók en jafnan gefist upp eftir svona þrjá mánuði, já eða þrjá daga. Þrjár mínútur?

Þessi var öðruvísi. Hún skrifaði sig eiginlega sjálf því ég leiddi aldrei hugann að bók. Það var ekkert markmið með þessum skrifum annað en að skrifa. Hrækja þessu úr mér og sjá svo bara til. Þetta var eins og lag sem varð til upp úr löngu djammi. 

Markmiðið er að skrifa. Helst daglega sé hægt að koma því fyrir. Tilgangurinn er að gleyma sér, týna sér, nálgast sig og kannski finna eitthvað nothæft þegar best lætur. 

Ég hef sjaldan verið jafn iðinn við skrifin. Megnið ratar í skúffuna en hver veit. 

Þetta lærði ég á árinu. Já, og ég lærði að baka franska súkkulaðiköku.

That’s it.  

 

Tilfinningarakur

Ritstíflustokkurinn biður mig um að segja frá hvenær eitthvað kom mér „ánægjulega“ á óvart.

Það hætti að rigna í síðustu viku, skýin voru dregin frá og tunglið elti okkur Elías heim úr skólanum á föstudaginn. Þetta fyllti mig fölskvalausri og nánast klisjukenndri gleði sem entist fram á kvöld. Og það út af fyrir sig kom mér nokkuð ánægjulega á óvart. Sumsé, viðbrögð mín en ekki veðurfarsbreytingarnar sjálfar. Veðrinu er sama hvað mér finnst. En mér er greinilega ekki sama um veðrið. 

Veit ekki hvort þetta var svar. Ertu með eitthvað fleira, kæri stokkur?

What are the three major emotions that you’re carrying right now?

Í fyrsta lagi: Í augnablikinu einkennist lund mín af kvíðablandinni eftirvæntingu. Það er viðburður í dag á vegum vinnunnar þar sem ég á að sjá til þess að hlutirnir gangi sæmilega snuðrulaust fyrir sig. Þetta er eðlilegur sviðsskrekkur, tilfinning sem ég reyni ekki að ýta frá mér. Reynslan hefur kennt mér að hún heldur mér á tánum. Gæti líka verið áhrif koffíns en ég er búinn að drekka þrjá tvöfalda espresso síðan ég vaknaði. Jú, sennilega eru þetta áhrif koffíns. Svo margar samviskusamar konur að vinna með mér í dag að það getur ekkert klikkað.

Í öðru lagi: Við erum nýbúin að koma krökkunum í skólann. Þessi klukkustund milli sjö og átta er tími sem snýst um að gleyma engu. Ég er með þennan tékklista nokkurn veginn lærðan utanbókar hafandi átt börn í leikskóla í níu ár. Þið vitið: koma þeim á fætur, ýta og nuddast þar til þau eru burstuð, klædd og komin á ról. Þó gleymist alltaf eitthvað. Ein tónskólabók, ullarsokkar, heimaverkefnið etc. en aðallega gleymi ég einhverju sjálfur. Mæti ógreiddur í vinnuna, í mislitum sokkum, peysan á röngunni etc. Og á þessum níu árum hafa orðið nokkuð meltdown eins og þetta er kallað í dag (kallaðist brjálæðiskast í mínu ungdæmi). Þótt langt sé síðan síðast býst ég alltaf við því að einhver byrji að öskra á mig eða leggist í gólfið og fari svo að öskra á mig. Líklega er þetta einhversslags áfallastreituröskun. Þarf ég að fara í þerapíu eins og hver annar fyrrum hermaður í Írak? Veit ekki. Kannski ég prófi fyrst að draga úr kaffidrykkjunni.  

Í þriðja lagi: Ég upplifi stundum reiði sem foreldri. Þetta gerist t.d. þegar ég fer með yngra barnið í fimleika. Mér er skítsama um æfingarnar, hvort drengurinn geri þær réttar eða ekki. Who cares? Hann er ekki að fara á Ólympíuleika en ég fylgist með hvernig hann kemur fram við önnur börn og hvernig önnur börn koma fram við hann. Finnist mér hann órétti beittur langar mig til að ganga að sökudólgnum, öskra á hann og trámatísera for life. Fara svo til foreldranna og húðstrýkja þau með svipu sem ég geng að sjálfsögðu ekki með. Ég ranka samt alltaf við mér áður en ég læt til skara skríða.

Þetta eru allt saman eðlilegar tilfinningar. Ekki reyna að halda öðru fram en jú, ég er ekki frá því, drekk sennilega aðeins of mikið kaffi. 

That’s it í bili. 

 

 

Jæja, dóttir sæl/sonur sæll

Ég hef ákveðið að leita aftur á náðir ritstíflustokksins sem konan mín gaf mér í jólagjöf í hittiðfyrra. Hann spyr:

What career advice would you give to your 16-year-old self?

Hvaða starfsráðgjöf hefði ég veitt sextán ára útgáfunni af sjálfum mér?

Right. 

Sko…

Við hjónin erum auðvitað að reyna ala börnin okkar þannig upp að þau hafi sjálfstraustið til að taka svona ákvarðanir sjálf og þau þori að fylgja hjartanu. Ef sonur minn vill verða ljósmóðir vona ég að hann láti engar fyrirframgefnar hugmyndir um starfið (svosem eins og að konur eigi að sinna því) hindra sig. Og sömuleiðis vilji dóttir mín verða vörubílstjóri þá bara go for it. Ef það er það sem þú vilt, ástin mín. 

Ég vona að þau verði hugrökk. Að óttinn stjórni þeim ekki. 

Og þetta er beisíklí það sem ég myndi segja við sextán ára útgáfuna af sjálfum mér.

Ég var að vísu svo barnalegur að ég spáði ekkert í svona hluti þegar ég var sextán ára. Í minningunni lifði maður bara í núinu og fylgdi vinunum. Ég fór í menntaskóla vegna þess að þeir fóru í menntaskóla.

Síðustu önnina mína þurfti ég að leiða hugann að þessu og sótti um í FÍH. Alvaran á bak við ákvörðunina var samt ekki meiri en sú að ég fór ekki suður í inntökupróf. Sendi þeim þess í stað kassettu með trommusólói! Veit ekki hvort það var ofmat á sjálfum mér eða bara hrein leti. Sittlítið af hvoru hugsa ég en whatever…ég komst ekki inn. 

Í minningunni finnst mér eins og foreldrum mínum hafi ekkert litist á þetta. Pabbi minn rennismiðurinn var eins og biluð plata að því leyti að hann var sífellt að benda mér á rafeindavirkjun. Það væri framtíð í henni og ég þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Auðvitað hafði hann rétt fyrir sér en ég var aldrei týpan sem fílaði Legó. Ég fór nú samt í rafvirkjun hjá Hjalla en vegna verkfalls kennara hætti ég eftir sex vikur og fór lóðbeint í netagerðina. Því atvinnuleysi var ekki option á mínu heimili. Vinnan gerir okkur frjáls. 

Og mömmu minni ljósmóðurinni hugnaðist vel að ég lærði eitthvað sem tryggði vinnu hjá hinu opinbera. Lífeyrisréttindin sjáiði til.

Það sem þau voru í raun að segja var þetta: Gerðu eins og við og þér mun allavega ekki farnast mikið verr. 

Þriðja manneskjan til að hafa skoðun á þessu var svo námsráðgjafinn í menntaskólanum sem lagði fyrir mig áhugasviðspróf og sagði augljóst að ég yrði flottur enskukennari.

Ég er sennilega ekki mjög ráðþægur því ég fór ekki eftir neinum ráðum. Í háskólanum lærði ég bara eitthvað. Skráði mig í sálfræði, svo í hagfræði en endaði í sagnfræði. Skipti í miðjum klíðum yfir í félagsfræði vegna þess að besti vinurinn var í henni. 

Það var ekki fyrr en ég hóf störf sem blaðamaður hjá Austurlandi að ég ákvað að blaðamennska væri sennilega sniðug fyrir mann eins og mig. Sem hún var að mörgu leyti og í dag er ég upplýsingafulltrúi hjá opinberri stofnun. 

Ég meikaði það, mútta mín. 

Ef börnin verða eins og ég og vita ekkert í sinn haus mun ég segja þeim að það sé ekkert að óttast. Ég veit ekki enn hvað mig langar að verða þegar ég verð stór og það er líka til vinna fyrir þannig fólk. Og þess utan segði ég þeim að vinna sé ekki allt. Að lífið utan vinnu sé það sem gefur því gildi.  

Sumsé, finnið ykkur góðan maka og eignist börn. Ef einhver tími er aflögu, lesið heimspeki og bakið brauð.

Möo: Gerið eins og ég. 

 

Tveir heimar

Sonur minn er Boba Fett
og ég kyssi hann föðurlega á kinnina

hvísla í eyru hans að jafnvel
alræmdir hausaveiðarar
frá fjarlægum vetrarbrautum
þurfi að vera góðir strákar

hann slítur sig frá mér
og er horfinn
inn í annan heim
þar sem leðurblökukarlinn
tekur á móti honum
fagnandi

ég held áfram
sem leið liggur
niður í bæ
og yfir brúnna
með tölvupoka á öxlinni
og töflur gegn brjóstsviða í hliðarvasa
er ég skrifstofumaður á Reyðarfirði

 

 

Stundum

Upplýsingabylting
búsáhaldabylting
heimsfaraldur
og ég er örugglega
að gleyma einhverju
en man enn
danskt klámblaðið
sem við vinirnir
fundum niðurrignt
neðan við franska mel

rifið í sundur
í mesta bróðerni
fimm velktar síður á mann
restin ónothæf

ekki fimmtugur en stundum
að verða níræður